sun 05. febrúar 2023 20:20
Ívan Guðjón Baldursson
Walker ekki sammála að Haaland sé vandamálið
Mynd: Getty Images

Kyle Walker gaf kost á sér í viðtal eftir 1-0 tap Manchester City gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag.


Þetta tap er skellur fyrir Englandsmeistara Man City sem hefðu getað minnkað bilið á milli sín og toppliðs Arsenal niður í tvö stig með sigri í dag.

„Ég vil ekki vera neikvæður en það eru ýmsir hlutir sem við verðum að gera betur í sóknarleiknum. Við verðum að búa til betri færi, við verðum að prófa markvörðinn og láta hann verja frá okkur. Það þýðir ekkert að senda boltann bara á milli sín án þess að skapa neitt," sagði Walker eftir tapið, sem var svo spurður út í Erling Haaland sem hafði hljótt um sig á Tottenham Hotspur Stadium.

„Aðlögunarferlinu hans er ekki lokið. Hann er kominn til Manchester City og það er erfitt að spila hérna. Þjálfarinn er með gífurlega miklar kröfur og við erum einstakt lið með einstakan leikstíl. Erling hefur verið ótrúlegur frá komunni til félagsins. Það segir enginn neitt þegar hann skorar en svo þegar það gerist að hann skorar ekki þá vill fólk kenna honum um allt.

„Fólk er að segja að við séum betra lið án hans, að hann sé vandamálið. Ég hef oft heyrt þetta en svo kvartaði enginn þegar hann skoraði 25. markið sitt á tímabilinu."

„Þetta er leikmannahópurinn sem við höfum út tímabilið og við munum leggja allt í sölurnar til að vinna allt sem við getum."

Man City er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum eftir toppliði Arsenal sem á leik til góða. Manchester United kemur svo í þriðja sæti - aðeins þremur stigum eftir Man City.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner