mið 05. maí 2021 15:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sveinn Margeir meiddur - „Algjört must að fá inn markvörð"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stubbur
Stubbur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brebels
Brebels
Mynd: KA
Sveinn Margeir Hauksson meiddist á dögunum og mun missa af leiknum gegn KR á föstudag og verður mögulega eitthvað lengur frá.

„Þetta er ekki ósvipað og það sem gerðist við Sebastiaan Brebels. Sveinn var að blokkera skot og það snýst upp á ökklann og stígur svo niður. Þetta fór held ég ekki jafn illa og hjá Seba," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, við Fótbolta.net í dag.

„Ég veit ekki með leikinn gegn Leikni í næstu viku. Það gæti verið að hann sé of snemma. Þetta gæti verið 10 dagar eða hálfur mánuður, ég veit það hreinlega ekki og er persónubundið."

„Við vorum að tala um það rúmri viku fyrir mót að við þyrftum að lána menn því við vorum með svo rosalega stóran hóp. En svo fara menn að detta út og leikmenn komast ekki heim út af covid."

„Brebels er mjög duglegur og er byrjaður að æfa sjálfur en ekkert farinn að hlaupa. Vonandi getur hann byrjað um eða eftir helgi og þá kemur í ljós hvað er langt í hann. Hann missir pottþétt út næstu tvo leiki og sennilega eitthvað aðeins meira."


Arnar talar um að leikmenn komist ekki heim út af covid. Þeir Bjarni Aðalsteinsson og Ýmir Már Geirsson eru vestanhafs en ættu að koma til landsins um eða eftir helgi. Að sögn Arnars hafa þeir báðir greinst með veiruna í vetur og óvíst í hvernig standi þeir koma til baka.

Algjört must að fá inn markvörð
Er Kristijan Jajalo búinn að fara í aðgerð?

„Nei, það kom í ljós í gær að þeir vildu fá hann í aðgerð. Vilja setja plötu í og skrúfa. Hann verður í gipsi í nokkrar vikur og svo má hann byrja að æfa sem markvörður um miðjan júlí í fyrsta lagi. Við búumst því ekki við honum fyrr en í ágúst."

Er einhver þróun hjá ykkur varðandi leit að markverði?

„Það er verið að leita en ég veit ekki á hvaða stigi það er akkúrat núna. Það voru ágætis líkur á því að við værum að landa einum en það datt upp fyrir sig í gær. Núna erum við að skoða aðra kosti og allt á fullu að fá einhvern inn fyrir 15. maí. Við þurfum að fá einhvern inn til að vera með Stubb."

„Það er ekki sanngjarnt að henda jafn ungum strák og Ívar (Arnbro Þórhalsson f. 2006) er, ef til þess kæmi að eitthvað kæmi fyrir Stubb. Ívar er mjög flottur og efnilegur strákur. Það styttist í gluggalok, ég vona að eitthvað gerist í dag eða á morgun. Sævar og markmannsþjálfarinn sjá um að finna markvörð, það er ekki mitt sérsvið."


Eruði eingöngu að horfa erlendis varðandi markvörð?

„Við höfum skoðað bæði, skoðum alla möguleika. Það gefur auga leið að við viljum fá sem bestan markvörð inn. En við þurfum líka að hugsa það þannig að vera með markvörð sem við getum treyst til að detta í markið ef eitthvað kemur fyrir Stubb. Það er ekkert endilega þannig að við þurfum einhvern til að taka við stöðuna af Stubb, hann sýndi gegn HK að hann getur alveg leyst þetta."

Varðandi sóknarmann? Arnar sagði eftir leikinn gegn HK að KA væri í leit að framherja eða kantmanni.

„Það hafa komið upp einhver nöfn og ég hef ýtt þessu yfir á stjórnina og Sævar. Við erum með fínan hóp þegar allir eru heilir, sem ekki er raunin í dag, við horfum til þess að fá einhvern inn í 2-3 mánuði upp á breiddina. Það er líka peningahliðin í þessu og allt í skoðun. Það er algjört must að loka markverði og það er í forgangi. Vonandi gerist það í dag eða á morgun, svo fer auka púður í hitt."

Addi sagði þá að það styttist í Elfar Árna Aðalsteinsson og Þorra Mar Þórisson sem glíma við meiðsli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner