Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 05. júlí 2022 21:30
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: HK-ingar unnu eftir dramatískar lokamínútur - Grótta á toppinn
Kjartan Kári Halldórsson skoraði tvö fyrir Gróttu
Kjartan Kári Halldórsson skoraði tvö fyrir Gróttu
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Valgeir Valgeirsson var rekinn af velli í sigri HK
Valgeir Valgeirsson var rekinn af velli í sigri HK
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding vann Kórdrengi, 2-1.
Afturelding vann Kórdrengi, 2-1.
Mynd: Raggi Óla
Fylkismenn eru í góðum málum
Fylkismenn eru í góðum málum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grótta er komið í toppsæti Lengjudeildar karla eftir 4-1 sigur á Fjölni á Vivaldi-vellinum í kvöld. HK vann þá Grindavík, 2-1, þrátt fyrir að spila manni færri síðustu tuttugu mínúturnar, en síðustu mínútur leiksins voru afar dramatískar.

Örvar Eggertsson skoraði fyrsta mark leiksins á 2. mínútu og kom HK-ingum í 1-0.

HK-ingar færðu boltann vel á milli og sköpuðu mikla hættu í fyrri hálfleiknum á meðan gestirnir reyndu að sækja hratt og fengu þannig góð hálffæri.

Valgeir Valgeirsson, lykilmaður HK, fékk að líta gula spjaldið á 66. mínútu og annað gula þremur mínútum síðar er hann fór í tæklingu og því sendur í sturtu. Bjarni Páll Linnet Runólfsson, sem sat á bekknum hjá HK, fékk einnig rauða spjaldið, en ekki er ljóst fyrir nákvæmlega hvað.

Undir lok leiks fengu Grindvíkingar vítaspyrnu. Tómas Leó Ásgeirsson var ískaldur á punktinm og skoraði með því að vippa boltanum á mitt markið.

HK-ingar voru greinilega ekki hrifnir af því og svöruðu. Ívar Örn Jónsson tók aukaspyrnu af hægri kanti og inn í teig á Bruno Soares sem stangaði boltann í markið. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-1.

HK er í 4. sæti með 18 stig en Grindavík í 6. sæti með 14 stig.

Öruggt hjá Fylki

Fylkir vann nokkuð þægilegan og öruggan sigur á Þrótti V. en þeim leik lauk með 3-0 sigri Árbæinga.

Mathias Laursen skoraði á 5. mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri og sex mínútum síðar skoraði Þórður Gunnar Hafþórsson annað mark Fylkismanna er hann afgreiddi boltann yfirvegað framhjá Rafal í marki Þróttara.

Arnór Gauti Jónsson gerði svo út um leikinn með skoti fyrir utan teig undir lok fyrri hálfleiksins og þar við sat. Fylkismenn í 2. sæti með 18 stig en Þróttur á botninum með 2 stig.

Grótta á toppinn

Grótta átti ekki í neinum vandræðum með Fjölni er liðin mættust á Vivaldi-vellinum en lokatölur þar urðu 4-1, Gróttu í vil.

Óliver Dagur Thorlacius kom Gróttu á bragðið með skoti af löngu færi á 7. mínútu en SIgurjón Daði Harðarson, markvörður Fjölnis, virtist sjá boltann seint.

Kristófer Orri Pétursson skoraði annað mark Gróttu stuttu síðar og var það af dýrari gerðinni. Patrik Orri Pétursson sendi fyrir markið á Kristófer sem tók hann aftur fyrir sig með hælnum og þaðan í netið.

Reynir Haraldsson minnkaði muninn á 35. mínútu með laglegu marki úr aukaspyrnu. Staðan 2-1 í hálfleik fyrir Gróttu.

Kjartan Kári Halldórsson gerði út um leikinn í síðari hálfleik með tveimur mörkum. Fyrst skoraði hann af stuttu færi og síðara markið var stórglæsileg aukaspyrna sem hann setti efst í fjærhornið.

Góður sigur Gróttu á Fjölni staðreynd og liðið nú á toppnum með 19 stig. Fjölnir er í 7. sæti með 14 stig.

Afturelding hafði betur gegn Kórdrengjum

Afturelding lagði Kórdrengi, 2-1, en liðin áttust við á Malbikstöðinni við Varmá.

Áhorfendur fengu flugeldasýningu strax í byrjun leiks. Óskar Atli Magnússon komst í gegn og sendi á Fatai Gbadamosi sem skoraði í fjærhornið.

Innan við mínútu síðar skallaði Elmar Kári Enesson Cogic fyrirgjöf Arons Elí Sævarssonar í netið og staðan jöfn, 1-1.

Elmar Kári átti stangarskot í byrjun síðari hálfleiks áður en Axel Freyr Harðarson, leikmaður Kórdrengja, var rekinn af velli fyrir sitt annað gula spjald í leiknum, en hann fékk það fyrir peysutog.

Heimamenn nýttu sér liðsmuninn og þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir kom Sigurður Gísli Snorrason með fyrirgjöf inn í teiginn á Javier Ontiveros Robles, sem skoraði og tryggði Aftureldingu sigurinn.

Afturelding er í 8. sæti með 13 stig en Kórdrengir sæti neðar með jafnmörg stig.

Úrslit og markaskorarar:

Afturelding 2 - 1 Kórdrengir
0-1 Fatai Adebowale Gbadamosi ('3 )
1-1 Elmar Kári Enesson Cogic ('4 )
2-1 Javier Ontiveros Robles ('76 )
Rautt spjald: Axel Freyr Harðarson, Kórdrengir ('67) Lestu um leikinn

Þróttur V. 0 - 3 Fylkir
0-1 Mathias Laursen Christensen ('5 )
0-2 Þórður Gunnar Hafþórsson ('11 )
0-3 Arnór Gauti Jónsson ('45 )
Lestu um leikinn

HK 2 - 1 Grindavík
1-0 Örvar Eggertsson ('2 )
1-1 Tómas Leó Ásgeirsson ('90 , víti)
2-1 Bruno Gabriel Soares ('90 )
Rautt spjald: ,Bjarni Páll Linnet Runólfsson, HK ('69)Valgeir Valgeirsson , HK ('69) Lestu um leikinn

Grótta 4 - 1 Fjölnir
1-0 Óliver Dagur Thorlacius ('7 )
2-0 Kristófer Orri Pétursson ('24 )
2-1 Reynir Haraldsson ('35 )
3-1 Kjartan Kári Halldórsson ('70 )
4-1 Kjartan Kári Halldórsson ('83 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner