Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 07. janúar 2021 12:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hjörtur og hans staða hjá Bröndby - „Erfitt að réttlæta að hann spili"
Hjörtur í leik með Bröndby í september.
Hjörtur í leik með Bröndby í september.
Mynd: Getty Images
Ég hef heyrt af áhuga. Mest frá Póllandi. Það er einnig áhugi á honum annars staðar í Skandinavíu.
Ég hef heyrt af áhuga. Mest frá Póllandi. Það er einnig áhugi á honum annars staðar í Skandinavíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri á vellinum með símann og drykk að vopni.
Orri á vellinum með símann og drykk að vopni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í baráttunni við Raheem Sterling síðasta haust.
Í baráttunni við Raheem Sterling síðasta haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var áhugi, það er 100% en hversu hátt skrifaður á listanum hann var veit ég ekki.
Það var áhugi, það er 100% en hversu hátt skrifaður á listanum hann var veit ég ekki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samningur Hjartar Hermannssonar hjá Bröndby í Danmörku rennur út í sumar. Hjörtur hefur verið hjá félaginu frá árinu 2016 en hann kom til félagsins frá PSV í Hollandi. Hjörtur verður 26 ára í næsta mánuði og leikur oftast í stöðu miðvarðar.

Fótbolti.net heyrði í Orra Rafni Sigurðarsyni, fyrrum fréttaritara hér og nú íþróttalýsara hjá Viaplay. Orri býr í Danmörku og fylgist náið með dönsku deildunum.

Hver er staða Hjartar hjá Bröndby?

„Staðan hans er ekki góð. Eftir því sem ég veit best þá er Bröndby ekki að fara framlengja samning hans sem rennur út í lok júní. Hann er á háum launum og hann er ekki hluti af þessu þriggja manna hafsenta teymi sem hefur spilað flesta leiki. Ég held að hann verði ekki leikmaður Bröndby á næstu leiktíð," sagði Orri.

Helduru að hann klári tímabilið?

„Bröndby er félag sem hlustar ekki í bulltilboð í sína leikmenn, félagið vill fá alvöru tilboð. Ef það kemur ekkert ásættanlegt boð í hann þá klárar Hjörtur tímabilið og fer svo frítt."

Hefur Hjörtur spilað mikið á leiktíðinni?

„Nei, eiginlega bara mjög lítið. Hann spilaði nokkra leiki í röð í september en svo kom kafli þar sem hann spilaði ekki. Svo hefur hann verið inn og út úr liðinu, byrjað tvo eða þrjá leiki síðan í september. Annars hefur hann komið inn á sem varamaður eða ekki komið við sögu í leikjunum."

Hjörtur hefur oft spilaði í hægri bakverðinum í landsliðinu. Hvar spilar hann hjá Bröndby?

„Hann er yfirleitt hægra megin í þriggja miðvarða kerfi. Hann á lítið erindi í bakvarðarstöðuna hjá Bröndby."

Stuðningsmenn Bröndby eru blóðheitir, hvernig er Hjörtur liðinn meðal þeirra?

„Þetta er svona Love&hate samband. Það eru sumir sem dýrka hann og gefa út að hann hafi sinnt sinni vinnu vel fyrir félagið. Það er talað um að hann hafi lagt sig fram (good soldier) en ekki mikið um að hann hafi verið góður. Þeir hafa heilt yfir ekki verið alltof sáttir með hann að undanförnu og launin hans Hjartar hafa þau áhrif að meira er ætlast til hans."

„Stuðningsmenn Bröndby eru engum líkir, þeir eru mjög kröfuharðir en á sama tíma styðja þér þétt við bakið á sínum mönnum. Kröfurnar eru rosalega háar og ef þú stendur ekki undir þeim þá er þetta brekka."


Hjörtur byrjaði rosalega vel á sínum tíma hjá Bröndby. Hvað hefur breyst?

„Það er mjög erfitt að svara þessu. Hann var að gera fullt af flottum hlutum. Hann hefur gert fleiri mistök en hann gerði finnst mér, verið að sofna á verðinum eins og hann væri ekki alveg með fulla einbeitingu. Svo hafa komið inn betri varnarmenn eins og Bröndby er vel sett. Andreas Maxso, Sigurd Rosted og Anthony Jung spila flesta leiki, Hjörtur leysir oftast Rosted af hólmi. Þetta eru allt leikmenn sem bæði á pappír og á velli taldir betri en Hjörtur. Hann er að keppa við leikmenn sem eru í háum gæðaflokki, Rosted og Maxso komu báðir árið 2019 og eftir það hefur þetta verið erfitt fyrir Hjört."

Kemur það þér á óvart hversu lítið Hjörtur hefur spilað?

„Nei, það kemur mér ekki á óvart. Ég vil auðvitað að hann spili allar mínútur hjá Bröndby en það er erfitt að réttlæta það þegar liðið er í einu af toppsætunum og með þessa varnarlínu. Það er oft erfitt, ef þú gerir nokkur slæm mistök sem kosta mark, að koma til baka hjá svona félögum. Það er mjög erfitt fyrir þig að koma til baka ef þú ert ekki uppalinn, eða frá svæðinu, ef þú gerir stór mistök."

Hefur það áhrif að Hjörtur er á góðum samningi hjá félaginu?

„Já, það hefur pottþétt áhrif. Bröndby er ekki félag sem splæsir brjáluðum upphæðum í kaup og laun leikmanna. Þetta er félag fólksins og gefur sig út fyrir að vera það. Ef þú ert launahár þá eykur það kröfurnar sem settar eru á þig. Ég held að það hafi haft áhrif vitandi að Hjörtur er á góðum launum."

Hefuru heyrt af áhuga á Hirti í þessum glugga?

„Já, ég hef heyrt af áhuga. Mest frá Póllandi, þar er talað um Legiu Varsjá og Lech Poznan. Það er einnig áhugi á honum annars staðar í Skandinavíu, Gautaborg hefur verið nefnt en ég veit ekki hvort að það sé eitthvað til í því. Hjörtur er góður leikmaður og það segir sig sjálft hafandi verið lengi hjá félagi eins og Bröndby og verið að leika með landsliðinu. Ég held að Hjörtur verði eftirsóttur biti, hvort sem hann verði keyptur á litla upphæð núna eða fari í júlí."

Síðasta sumar var talað um að Leeds væri með hann á einhverjum lista hjá sér. Einhverjir hafa dregið það í efa, var þetta raunverulegur áhugi?

„Það var áhugi, það er 100% en hversu hátt skrifaður á listanum hann var veit ég ekki. Það eru alltaf einhverjar sögusagnir. Þetta var einn af þeim sem eru 'too good to be true' svo maður sletti aðeins. Það fannst stuðningsmönnum Bröndby líka, þeir voru æstir í að selja hann þangað. Við höfum alveg séð skrítin félagaskipti í fótboltanum en stökk úr því að vera inn og út úr liðinu hjá Bröndby og yfir í það að vera hjá úrvalsdeildarfélaginu Leeds hefði verið svolítið stórt stökk," sagði Orri.
Athugasemdir
banner
banner
banner