Real vill Trent - Man Utd mun ekki reyna við Southgate - Aston Villa býr sig undir að keppa um Williams
   sun 07. apríl 2024 21:29
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Gylfi skoraði í sigri Vals - Stórskemmtileg sjö marka veisla í Árbæ
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Sigurjónsson skoraði beint úr horni í Árbæ
Atli Sigurjónsson skoraði beint úr horni í Árbæ
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kristján Flóki átti geggjaða stoðsendingu í þriðja marki KR
Kristján Flóki átti geggjaða stoðsendingu í þriðja marki KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Páll fékk rauða spjaldið eftir leik
Rúnar Páll fékk rauða spjaldið eftir leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur, sem spáð er Íslandsmeistaratitlinum í ár, fer mótið vel af stað en liðið vann nýliða ÍA, 2-0, á Hlíðarenda í dag. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í sínum fyrsta mótleik með Valsmönnum. KR-ingar unnu á meðan Fylki, 4-3, í stórskemmtilegum leik í Árbæ.

Leikurinn á Hlíðarenda var meira og minna einstefna af hálfu Valsmanna. Liðið var að reyna finna tækifærin til að komast í forystu en það gekk illa fyrsta hálftímann eða svo.

Heimamenn voru hins vegar þolinmóðir og kom markið fyrir rest er Patrick Pedersen skallaði boltanum í netið eftir skallasendingu Orra Sigurðar Ómarssonar. Þetta var 100. deildarmark Pedersen á Íslandi.

Gylfi Þór, sem var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi, var nálægt því að bæta við öðru undir lok fyrri hálfleiks en setti boltann rétt fram hjá markinu eftir álitlega sókn.

Augnablikið sem margir landar biðu eftir kom á 59. mínútu en þá skoraði Gylfi Þór sitt fyrsta mark í efstu deild. Sigurður Egill Lárusson kom boltanum á Bjarna Mark Antonsson, hann setti boltann á Aron Jóhannsson sem lagði hann fyrir Gylfa og þaðan fór boltinn í netið.

Fimm mínútum síðar átti Gylfi skot í slá en það var hans síðasta verk í þessum leik því honum var síðan skipt af velli og inn kom Kristinn Freyr Sigurðsson.

Valsmenn sigldu þessum sigri örugglega heim. Sanngjarn sigur á Hlíðarenda og draumabyrjun hjá Val.

Sjö marka veisla í Árbæ

KR vann Fylki, 4-3, í skemmtilegum leik á Würth-vellinum í Árbæ í kvöld.

Vesturbæingar ætluðu sér stóra hluti í þessum leik og fengu fullt af færum til þess að gera út um leikinn snemma. Luke Rae átti þrumu skot í slá og þá kom Finnur Tómas Pálmason boltanum í netið stuttu síðar en var dæmdur rangstæður.

Fylkismenn náðu að vinna sig betur inn í leikinn eftir þetta og fengu nokkrar tilraunir en fóru illa að ráði sínu. KR-ingar tóku aftur völdin og uppskáru mark er Theodór Elmar Bjarnason skoraði það eftir sendingu Ægis Jarls Jónassonar, eftir smá vandræðagang í teig Fylkis.

Heimamenn náðu að bregðast við undir lok hálfleiksins. Matthias Præst fór illa með Alex Þór Hauksson áður en hann lagði boltanum út á Benedikt Daríus Garðarsson sem setti boltann í fjærhornið.

Síðari hálfleikurinn byrjaði nokkuð rólega en það fór að draga meira til tíðinda þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir. Luka Rae kom KR í forystu og það eftir glæsilegan undirbúning Kristjáns Flóka sem kom með hælsendingu inn á Rae sem skoraði með glæsilegu skoti. Eitt og ef ekki flottasta mark umferðarinnar!

KR-ingar hömruðu járnið á meðan það var heitt. Atli Sigurjónsson kom KR í tveggja marka forystu. Fylkismenn fengu aukaspyrnu og eftir smá klafs í teignum náði Kristján Flóki að hreinsa boltann frá en það reyndist frábær sending fyrir Atla sem kom sér í gegn og setti boltann í netið.

Atli gerði annað mark sitt á 80. mínútu leiksins og það beint úr hornspyrnu! Hann setti boltann inn í pakkann en enginn náði að koma við hann áður en boltinn söng í netinu.

Fylkismenn svöruðu strax. Halldór Jón Sigurður Þórðarson skoraði eftir sendingu frá Nikulási Val Gunnarssyni. KR-ingar vildu fá aukaspyrnu í aðdragandanum en fengu ekki.

Þeir gáfu ekki upp von og þegar tvær mínútur voru komnar í uppbótar minnkaði Þórður Gunnar Hafþórsson muninn niður í eitt mark. Fylkismenn keyrðu hratt upp í sókn og var það Guðmundur Tyrfingsson sem setti boltann á Þórð, sem skilaði honum örugglega í netið.

Í lok leiks var mikill hiti og fullt af spjöldum. Fylkismenn vildu fá vítaspyrnu seint í uppbótartíma en fengu ekki og eftir lokaflautið fékk Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, að líta rauða spjaldið fyrir mótmæli.

Ótrúlegum leik í Árbæ lokið og klárlega lang skemmtilegasti leikur umferðarinnar.

Fylkir 3 - 4 KR
0-1 Theodór Elmar Bjarnason ('23 )
1-1 Benedikt Daríus Garðarsson ('43 )
1-2 Luke Morgan Conrad Rae ('71 )
1-3 Atli Sigurjónsson ('73 )
1-4 Atli Sigurjónsson ('80 )
2-4 Halldór Jón Sigurður Þórðarson ('81 )
3-4 Þórður Gunnar Hafþórsson ('92 )
Rautt spjald: Rúnar Páll Sigmundsson, Fylkir ('97) Lestu um leikinn

Valur 2 - 0 ÍA
1-0 Patrick Pedersen ('37 )
2-0 Gylfi Þór Sigurðsson ('58 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner