
Orri Steinn Óskarsson tognaði nokkuð illa á dögunum og þurfti að vera á hækjum í nokkra daga. Hann mun ekki spila meira með Real Sociedad á tímabilinu og landsliðsfyrirliðinn verður að öllum líkindum ekki með landsliðinu í júní þegar Ísland mætir Skotlandi og Norður-Írlandi í æfingaleikjum ytra.
Fótbolti.net ræddi við landsliðsþjálfarann Arnar Gunnlaugsson í dag.
Fótbolti.net ræddi við landsliðsþjálfarann Arnar Gunnlaugsson í dag.
„Það er nánast útilokað (að hann verði með). Hann ætti að vera klár fyrir undirbúningstímabilið hjá Real Sociedad, en miðað við þær fregnir sem ég hef fengið er eiginlega útilokað að hann verði með. Þetta var frekar slæm tognun," segir Arnar. Arnar gerði Orra að fyrirliða landsliðsins fyrir síðustu landsleiki og Hákon Arnar Haraldsson er varafyrirliði.
Eru einhver önnur meiðsli sem þú veist af núna sem munu hafa áhrif á landsliðsvalið?
„Það eru flestir heilir, sumir að koma til baka, Daníel Leó (Grétarsson) er byrjaður að spila (með SönderjyskE) og Höddi Magg (Hörður Björgvin Magnússon) hefur verið í hóp (hjá Panathinaikos). Það er samt smá áhyggjuefni að það eru nokkrir sem eru ekki mikið að spila. Það er eitthvað sem er kannski fylgifiskur þess að vera með ungt og efnilegt lið. Það tekur smá tíma fyrir ákveðna leikmenn að festa sig í sessi hjá ákveðnum félagsliðum," segir landsliðsþjálfarinn.
Frá síðasta landsliðsverkefni, ef horft er í þá sem voru í síðasta landsliðshópi, hefur Bjarki Steinn Bjarkason ekkert spilað með Venezia, Andri Lucas Guðjohnsen hefur reglulega verið ónotaður varamaður hjá Gent, Elías Rafn Ólafsson hefur misst byrjunarliðssæti sitt hjá Midtjylland og Aron Einar Gunnarsson var að spila sinn fyrsta leik með Al-Gharafa síðan í febrúar í gær. Á móti er jákvætt að sjá að Jón Dagur Þorsteinsson hefur fengið mínútur hjá Hertha Berlin en þær fékk hann ekki í aðdraganda síðustu leikja.
Leikurinn gegn Skotum fer fram 6. júní á Hampden Park og fjórum dögum síðar spilar Ísland á Windsor Park.
Athugasemdir