lau 07. september 2019 20:53
Brynjar Ingi Erluson
Undankeppni EM: Coman öflugur gegn Albaníu - Naumur sigur Tyrklands
Kingsley Coman skoraði tvö fyrir Frakkland
Kingsley Coman skoraði tvö fyrir Frakkland
Mynd: EPA
Tyrkneska landsliðið vann mikilvægan sigur á Andorra
Tyrkneska landsliðið vann mikilvægan sigur á Andorra
Mynd: EPA
Nokkrir leikir fóru fram í undankeppni Evrópumótsins í kvöld en tveir leikir fóru fram í riðli Íslands. Frakkland vann Albaníu 4-1 á meðan Tyrkland vann nauman sigur á Andorra, 1-0.

Skipuleggjendurnir á Stade de France áttu í erfiðleikum fyrir leikinn en þjóðsöngur Andorra var fyrst spilaður og neituðu leikmenn Albaníu að spila fyrr en þeirra þjóðsöngur yrði spilaður.

Það tók um tíu mínútur að græja það vandamál áður en leikurinn byrjaði. Frakkarnir voru með mikla yfirburði og skoraði Kingsley Coman strax á 8. mínútu leiksins eftir glæsilega sendingu frá Raphael Varane.

Varane þræddi boltann í gegnum miðjuna á Coman sem skoraði úr þröngu færi. Olivier Giroud var næstur á blað en hann kláraði vel fyrirgjöf Lucas Hernandez.

Hernandez fiskaði vítaspyrnu tíu mínútum síðar en Antoine Griezmann brenndi af. Griezmann bætti þó upp fyrir það með því að leggja upp þriðja markið fyrir Coman.

Hinn 21 árs gamli Jonathan Ikone kom inná sem varamaður á 77. mínútu og skoraði átta mínútum síðar í fyrsta A-landsleiknum sínum fyrir Frakkland. Undir lok leiks minnkuðu gestirnir svo muninn úr vítaspyrnu með marki frá Sokol Cikalleshi. Lokatölur 4-1 fyrir Frakkland sem fer í efsta sæti riðilsins.

Tyrkland vann þá nauman sigur á Andorra, 1-0. Heimamenn fengu fjölmörg færi en nýttu þau illa. Ozan Tufan sá þó til þess að landa þremur stigum fyrir Tyrkland með marki undir blálokin. Staðan er því þannig að Frakkar eru efstir, Tyrkir í öðru og Ísland í þriðja sæti, öll með 12 stig.

Frábær útisigur Cristiano Ronaldo og félaga

Í B-riðli fóru tveir leikir fram en Úkraína vann Litháen 3-0. Oleksandr Zinchenko, Marlos og Ruslan Malinovsky gerðu mörkin en Úkraína er efst með 13 stig, átta stigum á undan Portúgal sem er í 2. sæti.

Portúgal vann mikilvægan leik gegn Serbíu, 4-2. William Carvalho kom Portúgal yfir áður en Goncalo Guedes gerði annað markið. Nikola Milenkovic klóraði í bakkann fyrir Serbíu og útlit fyrir að heimamenn myndu ná að komast aftur inn í leikinn.

Cristiano Ronaldo lokaði fyrir það stuttu síðar er hann slapp einn í gegn og lyfti boltanum yfir markvörðinn. Aleksandar Mitrovic skoraði svo fimm mínútum síðar áður en Bernardo Silva gerði út um leikinn og tryggði gestunum sigurinn.

Portúgal eins og áður segir í 2. sæti með 5 stig en á þó tvo leiki til góða á Úkraínu.

Úrslit og markaskorarar:

Litháen 0 - 3 Úkraína
0-1 Oleksandr Zinchenko ('7 )
0-2 Marlos ('28 )
0-3 Ruslan Malinovskiy ('62 )

Serbía 2 - 4 Portúgal
0-1 William Carvalho ('42 )
0-2 Goncalo Guedes ('58 )
1-2 Nikola Milenkovic ('68 )
1-3 Cristiano Ronaldo ('80 )
2-3 Stefan Mitrovic ('85 )
2-4 Adrien Silva ('86 )

Tyrkland 1 - 0 Andorra
1-0 Ozan Tufan ('89 )

Frakkland 4 - 1 Albanía
1-0 Kingsley Coman ('8 )
2-0 Olivier Giroud ('27 )
2-0 Antoine Griezmann ('37 , Misnotað víti)
3-0 Kingsley Coman ('68 )
4-0 Jonathan Ikone ('85 )
4-1 Sokol Cikalleshi ('90 , víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner