Brasilíska goðsögnin Ronaldo segir að samlandi hans, Vinicius Jr, hafi verðskuldað að vinna hin eftirsóttu Ballon d'Or verðlaun í ár, en þetta sagði hann í samtali við MARCA.
Vinicius átti sitt besta tímabil með Madrídingum er liðið varð Evrópu- og Spánarmeistari.
Hann var talinn líklegastur til að hreppa verðlaunin og gekk MARCA svo langt að það birti frétt þar sem hann var tilkynntur sem sigurvegari, en það kom í bakið á miðlinum.
Real Madrid var tjáð að Vinicius yrði ekki valinn bestur og ákvað Florentino Perez, forseti félagsins, að sniðganga verðlaunahátíðina sem fór fram í Frakklandi. Enginn fulltrúi á vegum Real Madrid mætti og var valið harðlega gagnrýnt.
Spænski miðjumaðurinn Rodri hlaut verðlaunin fyrir frammistöðu sína með Manchester City og spænska landsliðinu, en síðan þá hefur verið ákveðin herferð til að styðja við Vinicius.
Mörg stór nöfn hafa komið fram og sagt að hann hafi verðskuldað að vinna og hefur Ronaldo, ein stærsta goðsögn fótboltans, tekið þátt í þeirri herferð.
„Ég hef ekkert á móti Rodri en Vinicius Jr verðskuldaði að vinna Ballon d'Or 2024. Hann átti að vinna þetta,“ sagði Ronaldo við MARCA.
Valið var ekki eins augljóst og Ronaldo og fleiri halda fram. Rodri var akkerið á miðju Man City sem vann ensku úrvalsdeildina og ótrúlega mikilvægur er Spánn varð Evrópumeistari í sumar.
Athugasemdir