Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 08. febrúar 2023 12:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gunnhildi var ráðlagt að hætta - „Besta ákvörðun sem ég tók"
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir leik gegn Val með Stjörnunni.
Fyrir leik gegn Val með Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í landsleik á EM 2022.
Í landsleik á EM 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á landsliðsæfingu.
Á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líður ótrúlega vel," segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sem er aftur komin heim eftir um tíu ár í atvinnumennsku þar sem hún lék í Noregi og í Bandaríkjunum.

Gunnhildur kom í hlaðvarpsþátt hér á Fótbolta.net um síðustu helgi þar sem hún yfir feril sinn í atvinnumennsku og heimkomuna í Stjörnuna.

„Þegar ég fer út árið 2013 þá bjóst ég ekki við að vera úti í tíu tímabil. Ég vissi að ég myndi alltaf vilja koma heim og ljúka ferlinum. með Stjörnunni," segir Gunnhildur.

Það kom ekkert annað en að enda ferilinn í Garðabænum, þar sem hann hófst.

„Þetta var bara spurningin um tímasetninguna og mér fannst þetta rétti tíminn. Ég var tilbúinn í aðra hluti, að fara í vinnu og svona; fá festu í lífið. Í Bandaríkjunum eru svakaleg ferðalög og maður nær ekki að hafa mikla festu. Ég vildi gera meira við líf mitt en samt var ég ekki tilbúin að hætta í fótbolta enn. Ég hef mikið að bjóða þar."

„Þetta var erfið ákvörðun, en samt auðveld. Ég var áfram með samning úti og þau vildu halda mér. Maður er að gefa upp góðan samning úti til að koma hingað. Það gerir það að verkum að maður þarf að fara í 100 prósent vinnu. Það eru spennandi hlutir í gangi í Stjörnunni, frábær hópur og ég hlakka til að vinna með þeim."

Gunnhildur, sem er margreynd landsliðskona, er byrjuð að vinna sem kennari í Tækniskólanum meðfram fótboltanum.

„Ég íhugaði aðeins að fara í Evrópu en svo hugsaði ég bara um að koma heim. Stjarnan var eina félagið sem kom til greina. Stjarnan er mitt félag og ég ólst þar upp. Draumurinn var að koma hingað og enda í Garðabænum. Ég er mjög spennt fyrir næstu tveimur árum," segir Gunnhildur.

Komið til baka eftir þrjú krossbandsslit
Gunnhildur var fyrirliði í sigursælu liði Stjörnunnar áður en hún fór út til Noregs í janúar 2013. Hún hafði slitið krossband tvisvar áður en hún fór út og sleit svo krossband í þriðja sinn stuttu eftir að hún kom til Noregs.

Hún segir frá því í viðtalinu að þegar hún var yngri að þá hafi hún ekki vitað að það væri í boði að fara út í atvinnumennsku sem fótboltakona.

„Ég ætlaði ekki út í atvinnumennsku en Fanndís (Friðriksdóttir) var út í Noregi og hún heyrði í mér. Hún mælti með því að koma til Noregs. Hún sagði mér að tala við umboðsmanninn sinn. Ég hafði aldrei verið með umboðsmann og vissi ekki að það væru umboðsmenn fyrir konur... ég er mjög þakklát fyrir Fanndísi að pota aðeins í mig og segja mér að koma til liðs við hana í Noregi."

„Ég fór út og var boðin samningur. Svo slít ég krossband strax í þriðja skipti. Þá hugsaði maður hvort maður ætti að halda áfram eða hætta þessu. Var þessu ætlað að verða? Ég var ekki búin að spila marga landsleiki þá. Ég var 25 ára og maður velti fyrir sér hvort maður ætti að vera að þessu. Inn í mér fannst mér að ég ætti að halda áfram. Ég skipti um félag þegar ég var að koma til baka og það er held ég besta ákvörðun sem ég tók."

Gunnhildur fór frá Arna-Björnar til Grand Bodö. Það var ansi góð ákvörðun.

„Ég vildi ekki gera þetta undir neinni pressu, það var mikilvægt. Ég vissi hvernig ég vildi gera þetta eftir að hafa slitið tvisvar áður. Ég var frá í þrjú ár þegar ég var yngri."

„Mér var sagt að hætta. Eftir þriðju slitin var ég spurð af hverju ég væri að þessu. Kvennafótboltinn var ekki eins stór á þessum tíma og læknar höfðu ekki skilning á því hvers vegna ég væri að taka þá áhættu að halda áfram að spila. Ég fór í þriðju aðgerðinni í Noregi og þau eru hreinskilin þar, það vantar stundum smá hlýju. Ég kann alveg að meta það. Læknirinn mælti ekki með því að ég myndi spila áfram. Í einn eða tvo daga íhugaði ég það."

„Ég veit ekki hvað breyttist en ég hugsaði að þetta væri áskorun, ég myndi alltaf sjá eftir því að hafa ekki reynt. Ég reyndi og það gekk upp. Það er gott. Ég vildi allavega reyna á það."

Hún viðurkennir að það hafi verið hræðsla að koma aftur til baka eftir þriðju slitin. Þess vegna valdi hún að fara í annað félag.

„Liðið sem ég var í var mikið að ýta á mig að fara aftur 100 prósent í leiki, vera gamla góða Gunnhildur sem er ekki hrædd við neitt. Ég bara gat það ekki, ég var ekki tilbúin andlega. Í þetta skiptið leyfði ég mér að vera hikandi og taka minn tíma. Ég held að það sé rosalega mikilvægt fyrir ungar stelpur sem lenda í svona meiðslum að hlusta á líkama sinn. Það er allt í lagi að vera hræddur. Þetta kemur bara," segir Gunnhildur en hægt er að hlusta á spjallið í heild sinni hér fyrir neðan.
Gunnhildur Yrsa er mætt heim - Kom ekkert annað til greina
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner