sun 08. mars 2020 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fimmtán ár liðin frá mögnuðu marki Ronaldinho á Brúnni
Ronaldinho var töframaður með boltann.
Ronaldinho var töframaður með boltann.
Mynd: Getty Images
Í dag eru liðin 15 ár frá mjög svo eftirminnilegum leik Chelsea og Barcelona í Meistaradeild Evrópu.

Leikurinn endaði með 4-2 sigri Chelsea. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrsta mark leiksins á kvöldi þar sem Chelsea fór áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Það er þó líklega mark Ronaldinho sem er eftirminnilegast úr leiknum. Það var eins og tíminn hefði stöðvast þegar Ronaldinho fékk boltann fyrir utan vítateiginn. Hann sýndi glæsta takta áður en hann smellti boltanum með táarskoti fram hjá Petr Cech og í netið; bara eins og ekkert væri einfaldara.

Skórnir fóru upp á hillu hjá Ronaldinho árið 2015. Í dag er hann í vandræðum í Paragvæ þar sem han gæti átt yfir höfði sér fangelsisvist.

Áhugavert er að rýna í textalýsingu The Guardian frá leiknum. Þar skrifar Barry Glendenning fyrir leik: „Ég vildi fara og fjalla um leik Burnley og Leicester í Championship-deildinni í kvöld, en í staðinn var ég neyddur til að horfa á þennan Evrópuleik," skrifaði Glendenning. Leikur Burnley og Leicester það sama kvöld endaði markalaus.

Hér að neðan er markið sem Ronaldinho skoraði á þessu kvöldi fyrir 15 árum síðan. Njótið.


Athugasemdir
banner
banner
banner