mán 08. mars 2021 21:26
Victor Pálsson
Tuchel um Havertz: Engin spurning um hans karakter
Mynd: Getty Images
Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, var ánægður með sína menn í kvöld eftir 2-0 sigur á Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Stigin þrjú gera mikið fyrir Chelsea í Meistaradeildarbaráttu og átti liðið sigurinn skilið á Stamford Bridge.

Chelsea hefur ekki tapað í 11 leikjum undir stjórn Tuchel og var að halda hreinu í fimmta heimaleiknum í röð.

„Þetta var leikur þar sem pressan var undir. Við þekkjum stöðuna og virðum Everton og þeirra stjóra. Þetta var mjög erfitt því þeir eru með gott lið og eru að spila vel," sagði Tuchel.

„Við vorum alltaf með stjórn á leiknum. Í seinni hálfleik gátum við sett meira púður fram á við. Við sköpuðum mörg hættuleg færi og að lokum var þetta verðskuldaður sigur."

Tuchel hrósaði þá einnig Kai Havertz sem kom að báðum mörkum liðsins í sigrinum.

„Þetta er það sem við búumst við af Havertz. Við viljum að hann noti líkamann og snerpu. Hann er með viljann til að leggja upp og skora mörk. Það er engin spurning um hans karakter og hann sýndi það í dag."
Athugasemdir
banner
banner