Antony vill ekki yfirgefa Man Utd - Bakvörður Sevilla á blaði Man Utd - Newcastle ætlar að halda Trippier
   mán 08. apríl 2024 17:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Framkvæmdir á Laugardalsvelli í sumar? - „Vonandi sjá stjórnvöld að þetta gengur ekki lengur"
Laugardalsvöllu frá því október í fyrra.
Laugardalsvöllu frá því október í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Því miður erum við á undanþágu frá UEFA og sú undanþága er að renna út.'
'Því miður erum við á undanþágu frá UEFA og sú undanþága er að renna út.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tíminn er ekki að vinna með okkur eins og staðan er núna.
Tíminn er ekki að vinna með okkur eins og staðan er núna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvennalandsliðið hefur spilað tvo heimaleiki á Kópavogsvelli það sem af er ári.
Kvennalandsliðið hefur spilað tvo heimaleiki á Kópavogsvelli það sem af er ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ mun í lok vikunnar funda með borgarstjóra um framkvæmdir á Laugardalsvelli. Fundað hefur verið síðustu vikur með Reykjavíkurborg um mögulegar framkvæmdir á Laugardalsvelli. Það er flókið mál að spila leiki á Laugardalsvelli frá nóvember og fram í maí og það vill sambandið einfalda með framkvæmdum í sumar.

Það sem af er ári hefur kvennalandsliðið spilað tvo heimaleiki á Kópavogsvelli þar sem Laugardalsvöllur hefur ekki verið leikfær.

Fótbolti.net ræddi við Jörund Áka Sveinsson, yfirmann fótboltamála og tímabundinn framkvæmdastjóra KSÍ, í dag.

„Við höfum átt nokkra fundi með eigendum vallarins og eigum fund núna í lok þessarar viku með borgarstjóra þar sem við fáum vonandi einhver svör við því sem þarf að gera til þess að völlurinn uppfylli þau skilyrði sem UEFA telur að þurfi að vera," sagði Jörundur Áki.

Hybrid gras á Laugardalsvöll?
Ein af hugmyndunum sem hafa komið upp er að breyta undirlaginu á Laugardalsvelli í 'hybrid' gras - blöndu af venjulegu grasi og gervigrasi.

„Það eru alls konar hugmyndir í gangi og ein af þeim er að skipta um undirlag og fara í hybrid, reyna taka þetta í skrefum. Við vitum að það er lítið til af fjármagni til að fara í risa leikvang - og það stendur heldur ekki til. Ég veit að þjóðarhöllin er í forgangi núna. En það þarf að eiga sér stað breyting á Laugardalsvelli - þjóðarleikvanginum. Því miður erum við á undanþágu frá UEFA og sú undanþága er að renna út. Eitthvað þarf að gerast til þess að við getum haldið áfram að spila á Laugardalsvelli. Það væri frábært að geta fengið einhver svör núna á næstunni."

Ef það verður farið í að skipta um undirlag, hvar mun þá kvennalandsliðið spila?

„Ef við fengjum vilyrði fyrir því að fara af stað í framkvæmdir strax þá myndum við þurfa að leysa það með því að kvennalandsliðið spili þá annars staðar í sumar, karlalandsliðið á ekki heimaleik fyrr en í september. Það yrði þá Kópavogsvöllur eða einhver annar sambærilegur völlur sem við þyrftum að horfa til." Eitthvað hefur heyrst af því að Lambhagavöllurinn í Úlfarsárdal gæti einnig orðið heimavöllur landsliðsins ef það verður farið í framkvæmdir á Laugardalsvelli.

Jörundur segir að ef farið verður í framkvæmdirnar þá verði einnig lagt hitakerfi og vökvunarkerfi undir völlinn.

Tíminn ekki að vinna með sambandinu
„Við þurfum að átta okkur á því líka að frjálsíþróttasambandið er líka með sína aðstöðu á Laugardalsvelli, hann er þjóðarleikvangur frjálsra íþrótta. Það eru því ákveðin flækjustig í þessu. Við erum búin að funda með frjálsíþróttasambandi og funda með yfirvöldum."

„Núna þurfum við að fá svör hvort við að getum farið af stað í þetta strax. Við höfum kannað þá möguleika sem eru í stöðunni með þar til bærum aðilum sem myndu taka verkið að sér og það ætti að vera auðvelt að koma þessu af stað og klára þetta fyrir haustið ef við getum byrjað sem allra allra fyrst. Tíminn er ekki að vinna með okkur eins og staðan er núna."


Brýnast að vera með völl sem fær samþykki UEFA
Það má heyra á þér að framundan séu ekki neinar risa framkvæmdir, það er ekki verið að fara í nýjan leikvang. Er það ekkert svekkjandi?

„Það getur vel verið að einhverjum finnist það svekkjandi, en við verðum að horfa í það raunsætt að við erum ekki að fara fá fjármagn til þess að byggja hér risa leikvang, enda teljum við að það sé kannski ekki nauðsynlegt. Við viljum horfa í völl með 10-12 þúsund manns og taka það skref kannski í áföngum sem síðan er hægt að stækka seinna meir."

„Það sem er brýnast núna er að við fáum völl sem UEFA samþykkir, og við erum ánægð með, til þess að spila okkar heimaleiki á. Við erum að fara spila lengra enn inn í haustið og Evrópukeppni félagsliða er líka farin að spila inn í. Það verður að fara eiga sér stað breyting á því hvernig málum Laugardalsvallar er háttað. Við vonumst til þess að stjórnvöld horfi til þess með okkur og sjái að þetta gangi ekki lengur,"
sagði Jörundur.

Heimaleikirnir sem kvennalandslið á næstu mánuði:
Undankeppni EM
4. júní Ísland - Austurríki
12. júlí Ísland - Þýskaland

Næsti heimaleikur karlalandsliðsins:
Þjóðadeild
6. september Ísland - Svartfjallaland
Athugasemdir
banner
banner