Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 08. september 2021 20:37
Brynjar Ingi Erluson
Þjóðverjar of stór biti fyrir Íslendinga
Icelandair
Öruggur sigur þýska liðsins í kvöld
Öruggur sigur þýska liðsins í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leroy Sane og Birkir Már Sævarsson í baráttunni
Leroy Sane og Birkir Már Sævarsson í baráttunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 0 - 4 Þýskaland
0-1 Serge Gnabry ('5 )
0-2 Antonio Rudiger ('24 )
0-3 Leroy Sane ('56 )
0-4 Timo Werner ('89 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið tapaði fyrir Þýskalandi, 4-0, í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld. Vonir Íslendinga um að komast á HM í Katar eru sáralitlar.

Það tók Þjóðverja aðeins fimm mínútur að komast yfir með marki frá Serge Gnabry. Leroy Sane átti sendingu frá vinstri á Gnabry sem kláraði vel. Flaggið fór upp hjá aðstoðardómaranum en var síðar dæmt löglegt af VAR.

Ísak Bergmann Jóhannesson fékk fyrstu marktilraun Íslands á 18. mínútu. Hann og Þórir Jóhann Helgason áttu gott samspil áður en Ísak lét vaða en Manuel Neuer sá við honum.

Sex mínútum síðar kom annað mark þýska liðsins. Antonio Rudiger gerði það. Þjóðverjar fengu aukaspyrnu sem Joshua Kimmich tók og kom honum inn í teiginn á Rudiger sem var aleinn og skallaði hann örugglega í netið.

Hannes Þór Halldórsson varði gott skot Leon Goretzka nokkrum mínútum síðar. Staðan í hálfleik 2-0 fyrir Þjóðverjum.

Timo Werner var samur við sig í byrjun síðari hálfleiks en hann klúðraði dauðafæri á 49. mínútu.

Tveimur mínútum síðar skoraði Ísland en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Jóhann Berg Guðmundsson átti skot í stöng, boltinn barst á Albert Guðmundsson sem skoraði en hann var réttileg dæmdur rangstæður.

Þjóðverjar gátu skorað þriðja markið á 55. mínútu. Þjóðverjar keyrðu hratt á Íslendinga, voru þrír gegn einum. Boltinn barst á Kai Havertz sem var einn gegn Hannesi en skaut honum framhjá markinu. Algert dauðafæri.

Þriðja markið kom aðeins mínútu síðar. Leroy Sane gerði það eftir góða sendingu frá Leon Goretzka. Sane fékk boltann vinstra megin í teignum og þrumaði honum upp í þaknetið.

Gestirnir fengu urmul af færum á næstu mínútum til að bæta við en ekkert gekk upp. Goretzka kom boltanum í netið en Jamal Musiala var dæmdur rangstæður. Hann var í rangstöðu og fyrir framan Hannes þegar skotið kom og því réttilega dæmt af.

Timo Werner klúðraði þá fyrir opnu marki nokkrum mínútum áður en hann bætti upp fyrir það á 89. mínútu. Hann fékk boltann í teignum, skaut á Hannes sem varði hann í stöng og inn. Havertz hljóp á eftir boltanum en leyfði honum að rúlla í netið.

Lokatölur 4-0 fyrir Þýskalandi sem er með 15 stig á toppnum í riðlinum en Ísland með 4 stig í 5. sæti. Tölfræðilega er möguleikinn á að komast til Katar enn til staðar en íslenska liðið þyrfti að vinna rest og treyst á önnur úrslit.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner