Manchester United og Borussia Dortmund munu í dag funda um mögulegan skiptidíl fyrir janúargluggann.
Þetta kemur fram í þýskum fjölmiðlum í dag en Dortmund og United eru að skoða að skipta á leikmönnum; Dortmund myndi þá fá Sancho og United myndi fá Donyell Malen í staðinn.
Sancho, sem er 23 ára gamall, var keyptur til United frá Dortmund fyrir tveimur árum.
Englendingurinn var einn heitasti leikmaður Evrópu og miklar væntingar gerðar til hans. Hann hefur verið skugginn af sjálfum sér og situr nú í frystikistunni eftir að hafa gagnrýnt Erik ten Hag, stjóra liðsins, á samfélagsmiðlum.
Þá hefur Malen ekki verið fastamaður í liði Dortmund á tímabilinu, en hann hefur samt sem áður komið að sjö mörkum í 18 leikjum til þessa. Draumur Malen er að spila á Englandi og er United áhugasamt um leikmanninn.
Þetta gæti verið góð lausn fyrir báða aðila en það verður fróðlegt að heyra hvað kemur út úr fundi dagsins.
Athugasemdir