Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool hefur boðið Mohamed Salah, leikmanni liðsins, nýjan samning en þetta segir hinn afar virti David Ornstein á X í kvöld.
Mirror sagði frá því í morgun að Salah væri búinn að samþykkja tveggja ára samning frá Liverpool.
Egypski leikmaðurinn vildi gera þriggja ára samning á meðan Liverpool var aðeins tilbúið að bjóða honum eins árs framlengingu, en aðilarnir fóru milliveginn og sættust á tveggja ára samning.
Blaðamaðurinn sem skrifaði þá grein er ekki beint sá virtasti í bransanum, en í þetta sinn hafði hann nokkurn veginn rétt fyrir sér því Athletic hefur nú staðfest að Salah sé kominn með tilboð frá Liverpool.
Ornstein segir að þó Salah sé kominn með samningstilboð þá er það ekki samasemmerki um að hann sé búinn að samþykkja að skrifa undir samninginn. Hlutirnir gætu tekið dágóðan tíma, sama hver útkoman verður.
Salah, sem er 32 ára gamall, verður samningslaus eftir tímabilið eins og þeir Trent Alexander-Arnold og Virgil van Dijk, en allir þrír hafa nú fengið formlegt tilboð frá klúbbnum.
Athugasemdir