Sancho, Van de Beek, Greenwood, Soule, Todibo, Müller og fleiri góðir koma við sögu í slúðri dagsins
banner
   mið 09. maí 2018 10:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara í 3. deild: 7-10. sæti
watermark Úr leik hjá Dalvík/Reyni og Ægi í fyrra.  Dalvík/Reyni er spáð 8. sætinu en Ægi 7. sæti..
Úr leik hjá Dalvík/Reyni og Ægi í fyrra. Dalvík/Reyni er spáð 8. sætinu en Ægi 7. sæti..
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
watermark KF er spáð 8.sæti.  Hér mynd úr leik liðsins gegn Magna í Mjólkurbikarnum á dögunum.
KF er spáð 8.sæti. Hér mynd úr leik liðsins gegn Magna í Mjólkurbikarnum á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
watermark Einar Már Þórisson kantmaður KV í leik í vetur.
Einar Már Þórisson kantmaður KV í leik í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Keppni í 3. deild karla hefst á föstudaginn. Fótbolti.net fékk þjálfarana í deildinni til að spá fyrir um lokastöðuna.

Hver þjálfari skilaði inn spá 1-9 og sleppti sínu liði. Hér að neðan má sjá liðin sem enduðu í 7-10. sæti í spánni en niðurstaðan í heild sinni birtist síðar í vikunni.

7. sæti Ægir 38 stig
Sæti í fyrra: 7. sæti í 3. deild
Eftir fall úr 2. deild árið 2016 þá náði Ægir ekki að blanda sér í toppbaráttuna í fyrra. 7. sætið varð niðurstaðan í Þorlákshöfn eftir nokkuð kaflaskipt tímabil. Sveinbjörn Jón Ásgrímsson er tekinn við þjálfun Ægis en hann þjálfaði liðið síðast fyrir nokkrum árum. Reynsluboltarnir Arilíus Marteinsson og Einar Ottó Antonsson, fyrrum leikmenn Selfoss, verða í stórum hlutverkum en inn á milli í liðinu eru einnig uppaldir leikmenn í Þorlákshöfn.
Lykilmenn: Andri Björn Sigurðsson, Arilíus Marteinsson, Einar Ottó Antonsson.
Þjálfarinn segir - Sveinbjörn Jón Ásgrímsson
„Það verður vonandi jafnt og spennandi mót sem við fáum þegar, styttir upp. Reikna með að það verði allir að reita stig. Við erum í þessu til að vinna, reikna með því að flestir séu í þeim sporum. Annars er afskaplega erfitt að sjá fram í tímann."

8. sæti KF 36 stig
Sæti í fyrra: 5. sæti í 3. deild
KF sigldi lygnan sjó í fyrra eftir fall úr 2. deild sumarið 2016. Liðið sleppti alveg jafnteflunum í fyrra en það vann níu leiki og tapaði níu. Hinir efnilegu Valur Reykjalín Þrastarson og Vitor Vieira Thomas fóru í Val í vetur auk þess sem færri erlendir leikmenn eru hjá liðinu en í fyrra. Þrátt fyrir það var árangurinn á undirbúningstímabilinu góður og hann ætti að gefa ástæðu til að vera bjartsýnni en spáin segir til um. KF vann sinn riðil í B-deild Lengjubikarsins en fór ekki áfram þar sem ólöglegur leikmaður spilaði þegar hann átti að vera í banni.
Lykilmenn: Aksintije Milisic, Andri Freyr Sveinsson, Halldór Ingvar Guðmundsson.
Þjálfarinn segir - Slobodan Milisic
„Þessi spá kemur mér töluvert á óvart. Hins vegar er oft ekkert að marka þessar spár mikið en við munum sjá hvernig þetta þróast í sumar. Við erum að reyna styrkja okkur enn frekar fyrir mót og markmiðið okkar er að reyna vinna hvern einasta leik og svo verðum við bara að sjá hve langt það fleytir okkur í sumar."

9. sæti Dalvík/Reynir 33 stig
Sæti í fyrra: 8. sæti í 3. deild
Eftir fallið úr 2. deildinni 2015 þá hefur gengið erfiðlega fyrir Dalvík/Reyni að rétta skútuna af. Falldraugurinn hefur verið á sveimi í Svarfaðardalnum undanfarin tvö tímabil en liðið bjargaði sér í bæði skiptin. Ungir heimamenn hafa verið að koma upp og þeir fá tækifæri í sumar í bland við öfluga erlenda leikmenn. Liðið náði flottum úrslitum í Lengjubikarnum og burstaði meðal annars Vængi Júpíters sem er spáð ofarlega í 3. deildinni í sumar.
Lykilmenn: Kelvin W. Sarkorh, Kristinn Þór Björnsson, Steinar Logi Þórðarson.
Þjálfarinn segir - Sveinn Þór Steingrímsson
„Spáin kemur okkur ekkert á óvart miðað við gengi liðsins síðustu tímabil. Nú er það bara okkar að afsanna hana. En ég held að deildin verði mjög jöfn og spennandi. Við höldum okkar markmiðum út af fyrir okkur en við ætlum að sjálfsögðu að gera betur en í fyrra. Hópurinn er nánast klár. Það gætu dottið inn 1-2 leikmenn fyrir tímabilið."

10. sæti KV 25 stig
Sæti í fyrra: 11. sæti í 2. deild
KV féll úr 2. deildinni í fyrra og þjálfarar í 3. deildinni hafa trú á því að liðið falli annað árið í röð. Björgvin Vilhjálmsson og Sigurvin Ólafsson eru teknir við KV og stefnt er á að auka samstarf liðsins við KR. Gengi KV á undirbúningstímabilinu var ekkert sérstakt en lykilmenn liðsins hafa margir hverjir verið að glíma við meiðsli núna í vor. Vesturbæingar hafa oft verið erfiðir heim að sækja á KV park og ljóst er að hjá KV er stefnan sett mun hærra en spáin segir til um.
Lykilmenn: Auðunn Gylfason, Garðar Ingi Leifsson, Njörður Þórhallsson.
Þjálfarinn segir - Björgvin Vilhjálmsson
„Spáin kemur okkur þjálfurum KV á óvart, okkar markmið eru að gera betur enn þessi spá segir til um. Við eigum von á einhverjum liðsstyrk á næstu dögum."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner