mið 09. júní 2021 13:00
Fótbolti.net
Magnús Már lætur af störfum hjá Fótbolta.net (Staðfest)
Elvar Geir Magnússon og Magnús Már Einarsson á HM í Rússlandi.
Elvar Geir Magnússon og Magnús Már Einarsson á HM í Rússlandi.
Mynd: Fótbolti.net
Breytingar hafa orðið hjá Fótbolta.net en annar af ritstjórum síðunnar, Magnús Már Einarsson, hefur látið af störfum. Magnús hefur ákveðið að draga sig í hlé frá fjölmiðlastörfum og einbeita sér að þjálfaraferlinum og fjölskyldu.

Magnús, sem er 32 ára, hefur starfað á Fótbolta.net frá þrettán ára aldri og fór í fullt starf 2009 þar sem hann hefur verið ritstjóri ásamt Elvari Geir Magnússyni í áraraðir. Elvar heldur áfram sem ritstjóri.

Magnús Már Einarsson:
„Ég hef kynnst ótrúlega mikið af skemmtilegu og góðu fólki í gegnum starf mitt á .net í gegnum tíðina, farið í ógleymanlegar ferðir erlendis að fylgja íslenska landsliðinu (hápunktarnir EM og HM) og þessi vinna hefur verið gífurlega gefandi og skemmtileg. Fótbolti.net er í frábærum höndum í dag og mun pottþétt halda áfram að vaxa og dafna með hverju árinu líkt og hingað til. Ég hætti mjög sáttur og breytist úr starfsmanni yfir í dyggan lesanda Fótbolta.net. Takk kærlega fyrir mig!"

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri:
„Það hafa verið algjör forréttindi að vinna með Magga öll þessi ár og ég tel okkur hafa myndað afskaplega gott jafnvægi fyrir síðuna. Hann mun aldrei sleppa alveg frá .net og ljóst að hann verður áfram tengdur síðunni á einn eða annan hátt og áfram verður leitað ráða hjá honum varðandi ýmis mál. Síðan mun nú fóta sig áfram í breyttu umhverfi og skemmtilegar áskoranir framundan þar sem aðrir starfsmenn miðilsins, ungir og öflugir íþróttafréttamenn, fá meiri ábyrgð og stærra hlutverk. Ég fullyrði að Fótbolti.net hefur aldrei haft eins marga öfluga starfsmenn eins og raunin er í dag."

Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri:
„Maggi hefur verið ómetanlegur hluti af Fótbolta.net í 19 ár og á stóran þátt í að vefurinn er langmest lesni íþróttamiðill landsins. Drifkraftur hans hefur frá fyrsta degi mótað miðilinn og gert Fótbolta.net að því sem vefurinn er. Það eru viðbrigði að hitta hann ekki á skrifstofunni alla morgna en hann verður áfram hluthafi í fyrirtækinu. Með þessari breytingu hefur okkur gefist færi á að gefa öðrum öflugum starfsmönnum stærra hlutverk og ljóst að við ætlum að halda áfram að verða betri."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner