
Ísland mætir Úkraínu í undankeppni HM fyrir fullum Laugardalsvelli á morgun. Ísland er í öðru sæti riðilsins, en Úkraína í því þriðja. Annað sætið gefur sem stendur umspilssæti fyrir HM. Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari Íslands var vongóður fyrir leikinn á blaðamannafundi Íslands í hádeginu.
„Ef við vinnum á morgun erum við komnir í mjög vænlega stöðu og mjög góða stöðu gagnvart Úkraínu. Ég held að allir geti séð að baráttan um annað sætið er á milli okkar og Úkraínu. Þótt við berum virðingu fyrir Aserbaísjan eru þeir held ég ekki nógu sterkir til að blanda sér í þá baráttu. Þannig við getum eyðilagt drauma Úkraínu á morgun,“ sagði Arnar.
Hann var því næst spurður um hvernig hann velur leikkerfi Íslands á morgun. Gegn Aserbaídsjan lék liðið í 4-3-3 leikkerfinu en gegn Frökkum 4-4-2.
„Það fer eftir styrkleika andstæðinganna, hvað við þurfum að gera. Á móti Aserbaídsjan vorum við að stýra leiknum, á móti Frökkum þurftum við að vera sterkari í varnarleiknum og þjást meira. Á móti Úkraínu verður þetta bland í poka.“
„Ég skil stundum ekki hvernig þessir strákar ná að meðtaka allar þessar upplýsingar sem við hendum í þá. En þeir eru vanir svona frá félagsliðunum, þetta eru elítuleikmenn. Þessi leikkerfi í dag eru margslungin, þetta er ekki eins og í gamla daga þar sem 4-4-2 voru 4-4-2. Eina sem ég get sagt er að við þurfum að vera sterkir í öllum fösum leiksins. Þannig er alvöru lið og þannig er alvöru fótbolti.“
„Á móti þessum þjóðum þurfum við að vera 100 prósent klárir taktíkslega séð. Ástæðan fyrir því að við töpuðum (gegn Frökkum) var að við vorum ekki 100 prósent, við vorum 90 plús. Eins og sást í sigurmarkinu.“
Úkraína topplið en stefnan sett á sigur
Arnar var spurður um hvernig væri að mæta Úkraínu sem eru með bakið upp við vegg í riðlinum eftir að hafa gert jafntefli við Aserbaídsjan í síðasta glugga.
„Þetta er ekki byrjunin sem þeir gerðu ráð fyrir og vonuðust eftir. Þegar þú missir stig einhvers staðar þarftu að vinna þau upp á öðrum vígsstöðum. Mögulega var sviðsmyndin þeirra að vinna Aserbaídsjan, gera jafntefli við okkur hérna og klára okkur á heimavelli þeirra. Núna þurfa þeir að breyta planinu.“
„Þetta er bara topplið, það er ekkert flóknara en það. Það er oft talað um þetta fræga mikilmennskubrjálaði Íslendinga, að gera ráð fyrir öllu. Sem er geggjað og það er krafan sem við gerum á okkur sjálfa. Okkar markmið er að vinna leikinn á morgun, ekki spurning. En við megum ekki vera klaufalegir og heimskir í okkar nálgun. Við erum að kljást við mikið af toppleikmönnum í evrópskum liðum og þurfum að virða þetta verkefni,“ sagði Arnar að lokum.
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Frakkland | 2 | 2 | 0 | 0 | 4 - 1 | +3 | 6 |
2. Ísland | 2 | 1 | 0 | 1 | 6 - 2 | +4 | 3 |
3. Úkraína | 2 | 0 | 1 | 1 | 1 - 3 | -2 | 1 |
4. Aserbaísjan | 2 | 0 | 1 | 1 | 1 - 6 | -5 | 1 |