 
                        
                                                                                                                
                                                                                                                
                        
                                     
    Frá Laugardalsvelli.  Þangað mætti njósnari Man Utd í gær til að sjá Íslands mæta Tékklandi, en komst þá að því að leikurinn færi fram í Katar.
                
    
                                                                
                Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United gerði heldur betur mistök þegar félagið ætlaði sér að senda njósnara á vináttulandsleik Íslands og Tékklands sem fór fram í Doha í Katar í gær.
                
                
                                    Félagið sendi tölvupóst á KSÍ vel tímanlega og óskaði eftir miða fyrir sinn fulltrúa á leikinn.
Um var að ræða staðlaðan póst frá enska félaginu sem það sendir á knattspyrnusambönd um allan heim þegar njósnarar á þeirra vegum mæta á leiki.
KSÍ tók vel í beiðnina og danskur njósnari frá Man Utd var sendur af stað í verkefnið. Hann mætti hinsvegar galvaskur á Laugardalsvöll í gær og skildi ekkert afhverju öll ljós væru slökkt og enginn heima.
Þegar hann loks náði í fulltrúa frá KSÍ var honum tjáð að leikurinn færi fram hinum megin á hnettinum, í Katar, og því ljóst að hann átti engan möguleika á að ná honum.
Sá danski þurfti því að sætta sig við borgarferð í frostinu í Reykjavík í stað þess að spóka sig um í 30 stiga hita í sólinni í Katar. Gengur vonandi betur næst hjá enska félaginu og vonandi eru þeir að skoða einhvern leikmanna íslenska liðsins.
Leiknum hérna í Katar lauk svo með 1-2 sigri Tékka í gær en Kjartan Henry Finnbogason var besti leikmaður Íslands og skoraði mark okkar.
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
         
                                     
         
                    
        
         
                        
        
         
                                                                        
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                    
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                

