Þór Llorens Þórðarson er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við Selfoss sem gildir út keppnistímabilið 2021.
                
                
                                    Þór Llorens var meðal bestu manna Selfyssinga í sumar þar sem hann skoraði fimm mörk og lagði tólf upp sem vinstri bakvörður.
Á lokahófi Selfoss fékk hann viðurkenningu fyrir að vera sá leikmaður félagsins sem hefur sýnt mestar framfarir á árinu og þá var hann einn þriggja Selfyssinga í liði ársins í 2. deild.
Þór gekk í raðir Selfoss fyrir sumarið á lánssamningi frá ÍA og ákvað að vera áfram á Selfossi þar sem honum líður vel. Það voru önnur félög sem vildu fá Þór til sín en hann ákvað að vera áfram.
„Það er allt gott í kringum félagið og leiðinlegt að hafa ekki klárað þetta með því að fara upp. Þannig ég vil endilega hjálpa liðinu að komast upp um deild á næsta ári," sagði Þór.
„Það voru aðrir möguleikar sem komu til greina en ég taldi það best fyrir mig að vera áfram á Selfossi þar sem ég get spilað og þroskast sem leikmaður. Svo sjáum við til hvað gerist."
Athugasemdir
                                                                
                                                        
 
         
         
     
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                    
        
         
                        
        
         
                
