Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mán 10. janúar 2022 13:48
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Erfitt fyrir mig að tala fyrir hann hvernig staðan er"
Icelandair
Kolbeinn Sigþórsson á landsliðsæfingu í mars á síðasta ári.
Kolbeinn Sigþórsson á landsliðsæfingu í mars á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Bergmann í Evrópuleik fyrir tæpu ári síðan.
Björn Bergmann í Evrópuleik fyrir tæpu ári síðan.
Mynd: Getty Images
Þeir Björn Bergmann Sigurðarson og Kolbeinn Sigþórsson eru ekki í landsliðshópnum sem spilar tvo vináttuleiki í vikunni. „Þeir voru ekki í myndinni fyrir þennan hóp," sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson á fréttamannafundi í dag.

Fréttaritari spurði nokkurra spurninga út í valið á hópnum fyrir leikina sem fram fara í Tyrklandi.

Sjá einnig:
Böddi og DKÓ komu til greina - Gott fyrir Davíð Snorra
Janúarhópur Íslands - Tíu sem hafa ekki spilað landsleik

Eru einhverjir leikmenn sem þú hefðir viljað velja en gáfu ekki kost í sér í þetta verkefni?

„Ég held að það sé enginn," sagði Arnar og reyndi að rifja upp hvort einhver hefði neitað að koma í verkefnið.

„Þetta var aðalatriðið að hafa samband við félögin og fá svar hvort þau væru til í að losa leikmennina eða ekki. Ég held að það hafi ekki verið neinn sem vildi ekki koma," sagði Arnar.

Fréttaritari skaut að Arnari tveimur nöfnum, nöfnunum Kolbeinn Sigþórsson og Björn Bergmann Sigurðarson. Kolbeinn er án félags og hafa heyrst sögur um að hann sé jafnvel búinn að leggja skóna á hilluna. Samningur hans við Gautaborg rann út um áramótin. Björn Bergmann hefur glímt við meiðsli í langan tíma, hann er samningsbundinn Molde í Noregi.

Hvernig er staðan á þeim? Hvernig er hugurinn á Kolbeini, er hann hættur í fótbolta? Hvernig er ykkar samtal?

„Ég hef nú ekkert heyrt í Kolbeini núna nýlega, þannig það er erfitt fyrir mig að tala fyrir hann hvernig staðan er. Við vitum bara hvernig staðan var hjá honum fyrir áramót og hjá sínu félagsliði," sagði Arnar.

„Björn hefur náttúrulega átt við mikil meiðsli að stríða undanfarið ár. Í febrúar og mars var hann á góðu róli og var að spila þessa leiki í Evrópukeppninni. Hann er búinn að vera mikið meiddur síðan. Akkúrat á þessum tímapunkti er erfitt fyrir mig að tala um þessa tvo þar sem þeir voru ekki inn í myndinni fyrir þennan hóp. Það er kannski betra að spyrja þá um líðan og svo Kolla í sambandi við félagsliða ferilinn," sagði Arnar.

Reynt var að hafa samband við Kolbein við gerð þessarar fréttar.
Athugasemdir
banner
banner
banner