lau 10. júní 2023 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaraspáin - Verður þrennan kláruð?
Vinnur Manchester City þrennuna?
Vinnur Manchester City þrennuna?
Mynd: EPA
Siggi Höskulds og Dóri Árna spá í spilin.
Siggi Höskulds og Dóri Árna spá í spilin.
Mynd: Úr einkasafni
Mate Dalmay, markaðsstjóri Fótbolta.net og körfuboltaþjálfari Hauka, spáir einnig.
Mate Dalmay, markaðsstjóri Fótbolta.net og körfuboltaþjálfari Hauka, spáir einnig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er komið að því, í kvöld fer úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fram í Istanbúl í Tyrklandi.

Manchester City getur tryggt sér þrennuna og orðið þannig fyrsta enska liðið síðan 1999 til að vinna ensku úrvalsdeildina, enska bikarinn og Meistaradeildina á sama tímabili. Inter, sem endaði í þriðja sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, ætlar að reyna að stöðva það.

Í síðasta sinn á þessu tímabili er komið að Meistaraspánni, en starfsfólk Fótbolta.net hefur nú þegar tryggt sér sigur í keppninni á þessari leiktíð.

Halldór Árnason

Man City 3 - 0 Inter
Inter hafa verið virkilega seigir og farið þetta langt á sterkum varnarleik. Þeir fóru upp úr sterkum riðli og kreistu svo út úrslit gegn Porto, Benfica og nágrönnum sínum í AC Milan. Inter er það lið í allri Meistaradeildinni sem vinnur boltann lengst frá marki andstæðingsins að meðaltali, og á næstflestar marktilraunir eftir skyndisóknir.

Leið City í úrslitaleikinn hefur verið eintaklega sannfærandi. Þeir voru frábærir í riðlinum, pökkuðu Leipzig saman í 8 liða úrslitum og slátruðu svo bæði Bayern Munchen og Real Madrid. Markatalan í útsláttarkeppninni 17:3.

Leikurinn verður taktískur. Inter mun liggja til baka og freista þess að sækja hratt með Dzeko og Martinez sem fremstu menn og spyrja City hvort þeir séu nógu hugrakkir til að láta John Stones stíga úr vörninni og upp á miðjuna. Haaland hefur verið í veseni með að skora á móti þriggja manna vörn og liðið hefur tapað tvisvar sinnum gegn Brentford á tímabilinu.

En Pep hefur verið að komast lengra og lengra með City liðið í Meistaradeildinni. Eftir að hafa verið fastir í 8-liða úrslitum töpuðu þeir úrslitaleik 2021 og á einhvern ótrúlegan hátt duttu þeir út í undanúrslitunum í fyrra. Pressan er öll á City í þessum leik, bolurinn styður Inter og bíður eftir að komast á Twitter til að segja að Guardiola hafi ofhugsað leikplanið.

Liðið er hins vegar orðið rosalega þroskað, hefur sýnt ótrúlegan stöðugleika og hungrið virðist meira en nokkurn tímann áður. Inter gera hvað þeir geta til að múra fyrir markið sitt en City vinnur 3-0.

Sigurður Heiðar Höskuldsson

Man City 2 - 0 Inter
Sé bara ekki Inter eiga möguleika. City eru á fáranlega góðum stað með sinn leik frá A-Ö. Það mun ekkert rigna mörkum en það verður slegið met í possession í úrslitaleik. Endar 2-0, mjög sannfærandi.

Fótbolti.net spáir - Mate Dalmay

Man City 1 - 2 Inter (eftir framlengingu)
Þetta verður rosalegur leikur. Inter munu berjast og finna skyndisóknarmark í fyrri hálfleik, Lautaro Martinez skorar. City jafna svo seint í seinni hálfleik og allur heimurinn mun hafa áhyggjur að Pep taki þrennuna. Í framlengingunni skorar eldgamall Edin Dzeko eftir hornspyrnu sem Inter fá upp úr gjörsamlega engu.

2-1 eftir framlengingu og City í molum.

Staðan í heildarkeppninni:
Fótbolti.net - 25
Sigurður Heiðar Höskuldsson - 17
Halldór Árnason - 17
Athugasemdir
banner
banner