Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 10. júní 2023 14:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
FH lætur gott af sér leiða með nýjum bleikum búningi
Mynd: FH
FH kynnti til leiks þriðja búning liðsins í Kaplakrika fyrr í dag með mikilli viðhöfn og leikur liðið í þeim búning gegn Breiðabliki í Bestu deildinni í dag.

Lestu um leikinn: FH 2 -  2 Breiðablik

Treyjan hefur vakið mikla athygli en hún er bleik á lit. Ástæðan fyrir litavalinu er tenging við Krabbameinsfélag Íslands þar sem 500 krónur af öllum seldum treyjum renna óskiptar til Krabbameinsfélagsins.

„Við erum virkilega stolt af þessum nýja búningi og sérstaklega því að geta látið gott af okkur leiða og styrkt það frábæra starf sem Krabbameinsfélagið vinnur. Búningurinn er stílhreinn eins og FH-búningarnir hafa verið í gegnum tíðina og við erum stolt af því að heiðra söguna með gamla FH-merkinu á brjóstinu og stofnunarárinu 1929 í hálsmálinu," segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála FH.

„Krabbameinsfélag Íslands er afar þakklátt fyrir þann stuðning sem FH sýnir félaginu með sölu á sinni fallegu bleiku treyju. Félagið er alfarið rekið af sjálfsaflafé og á því mikið undir stuðningi almennings, félaga og fyrirtækja. Bleiki liturinn er félaginu afar kær þar sem eitt aðalbaráttuverkefni félagsins ár hvert er Bleika slaufan, árverkniátak gegn krabbameinum hjá konum. Við hvetjum að sjálfsögðu alla stuðningsmenn FH að fjárfesta í treyju félagsins og jafnframt styðja þá við mikilvæga baráttu gegn krabbameinum," segir Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður fjáröflunar og markaðsmála hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Til að kynna búninginn var ákveðið að gera myndband, hálfgerðan óð til Hafnarfjarðar og FH, í samstarfi við helstu styrktaraðila félagsins. FH-ingurinn og tónlistarmaðurinn Heiðar Örn Kristjánsson fer með aðalhlutverk í myndbandinu en einnig koma fram leikmenn meistaraflokka félagsins auk annarra góðra FH-inga. Hér fyrir neðan má sjá myndbandið.


Athugasemdir
banner
banner
banner