Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 10. júlí 2019 14:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gulli mætir gömlu félögunum: Á yndislegar minningar þaðan
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar mæta Vaduz annað kvöld.
Blikar mæta Vaduz annað kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Standið á mér er bara fínt, ég er klár í slaginn og hlakka mikið til," segir Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Breiðabliks í samtali við Fótbolta.net.

Á morgun mæta Blikar liði Vaduz frá Liechtenstein í forkeppni Evrópudeildarinnar á Kópavogsvelli. Um er að ræða fyrri leik liðanna. Leikurinn hefst 20:00 og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Blikar koma inn í leikinn gegn Vaduz með tvo tapleiki í röð í Pepsi Max-deildinni á bakinu. Síðasti leikur liðsins var 2-1 tap á heimavelli gegn nágrönnunum í HK. Eru menn búnir að jafna sig eftir það?

„Já, annað væri ótrúlegt. Auðvitað var það glatað að tapa þessum leik, en það er búið og þá er það næsti leikur, sérstaklega þegar maður fer í Evrópukeppni sem er annað dæmi. Við gerðum eins og eftir alla leiki, fórum yfir það sem getum bætt og svo framvegis. Svo byrjuðum við að hugsa um næsta leik."

„Það segir sig sjálft að það er miklu skemmtilegra að vinna en að tapa. Það eru forrétindi að taka þátt í Evrópukeppninni fyrir íslenskt fótboltalið og maður er fullur tilhlökkunar."

Mætir sínum gömlu félögum
Gunnleifur þekkir vel til hjá Vaduz. Hann spilaði þar nokkra leiki sumarið 2009 - fyrir 10 árum síðan. Þar var hann með Guðmundi Steinarssyni, núverandi aðstoðarþjálfara Blika, og Skagamanninum Stefáni Þór Þórðarsyni.

„Ég á yndislegar minningar þaðan. Ég var með Guðmundi og Stefáni og fjölskyldur okkar voru með okkur. Það gekk ekki vel á fótboltavellinum sjálfum, en lífið þarna var frábært og bara góðar minningar."

„Það verður meiriháttar að koma þarna aftur."

Hann segist ekki vita rosalega mikið um þetta lið í dag. Vaduz er í svissnesku B-deildinni en kemst í Evrópudeildina þar sem liðið vann bikarmeistaratitilinn í Liechtenstein enn eitt skiptið.

„Ég veit ekki mikið svo sem. Guðmundur Steinarsson er búinn að fara út og sjá þá spila æfingaleik. Hann er með allar upplýsingar um þá inn á vellinum. Ég fylgist alltaf með þeim. Þeir eru í B-deildinni í Sviss og gekk ekkert svakalega vel, en unnu bikarmeistaratitilinn í Liechtenstein eins og svo oft áður."

„Þetta lið er þaulvant Evrópukeppninni, félagið. Það fer í Evrópukeppni nánast á hverju einasta ári. Við ætlum að gera okkar allra besta til að slá þá út."

Held að þetta sé 50/50
Eins og áður segir er Vaduz í B-deildinni í Sviss. Hvernig lítur Gunnleifur á möguleika Blika í þessu einvígi?

„Við þurfum að eiga okkar besta leik og við þurfum að vera þroskaðir þegar við spilum þennan leik. Þetta er Evrópuleikur og þetta eru atvinnumenn og þeir refsa fyrir mistök. Við þurfum að vera þroskaðir í okkar nálgun og reyna að gera eins fá mistök og við getum."

„Möguleikar okkar eru fínir, ég held að þetta sé bara 50/50. Það eru allir spenntir og ég held að það séu allir heilir. Við erum með góðan og breiðan hóp," sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Blika.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner