mið 10. ágúst 2022 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ofboðslega duglegur hjá okkur og fyrirmynd fyrir marga"
Emil Ásmundsson.
Emil Ásmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Emil Ásmundsson skoraði mark tímabilsins í íslenska boltanum á dögunum. Hægt er að sjá markið sem hann skoraði með því að smella hérna.

„Þetta var geggjað, þetta var ógeðslega flott," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við Fótbolta.net. Emil er samningsbundinn KR og er í láni hjá uppeldisfélagi sínu, Fylki.

Emil hefur verið alveg einstaklega óheppinn með meiðsli síðustu árin og því lítið náð að spila með KR.

„Hann er í Fylki núna og klárar tímabilið þar. Hann er að reyna að fá mínútur og leiki þar. Það gengur ágætlega hjá honum. Það er ofboðslega gaman að sjá hann aftur á vellinum. Hann er búinn að vera gríðarlega óheppinn en það er skemmtilegt að sjá að hann sé að ná sér og sé á réttri leið, en það er enn eitthvað í land," sagði Rúnar.

„Hann hefur alltaf æft vel, er búinn að vera ofboðslega duglegur hjá okkur og er fyrirmynd fyrir marga hvað hann er duglegur að leggja á sig, en þetta hafa verið erfið meiðsli."

Samningur Emils rennur út eftir tímabil. Rúnar segir að staðan með samningamálin verði bara skoðuð þá. „Við sjáum til hvernig þetta þróast, það er enn nóg eftir," segir Rúnar.

Sjá einnig:
Bestur í 15. umferð - Töframark eftir erfiða meiðslagöngu
Athugasemdir
banner
banner
banner