Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   sun 10. september 2023 20:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hareide: Versta tilfinning sem til er í fótboltanum
Icelandair
Frá æfingu í dag.
Frá æfingu í dag.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mikil vonbrigði í Lúxemborg.
Mikil vonbrigði í Lúxemborg.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Landsliðsþjálfararnir ræða saman.
Landsliðsþjálfararnir ræða saman.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. Hann talaði þar mikið um vonbrigðin í Lúxemborg síðasta föstudagskvöld.

„Ég held að allir viti að við erum vonsviknir með úrslitin og frammistöðuna gegn Lúxemborg. Við bjuggumst við öðru úr þeim leik. Það var eðlilegt því mér fannst við byggja góðan grunn á heimavelli gegn Slóvakíu og Portúgal. Stundum eigum við svona daga. Við byrjuðum á því að gefa vítaspyrnu og það truflaði okkur mikið í byrjun leiks. Við fundum ekki taktinn og náðum ekki að gera það sem við höfðum verið að æfa. Svona gerist í fótbolta," sagði Hareide.

„Við gerðum mistök og frammistaðan var slök. Við þurfum að líta á jákvæðu augnablikin í leiknum. Ég lít á andann í hópnum, við gefumst ekki upp þegar við lendum manni færri. Við sköpuðum færi og skoruðum mark í þeirri stöðu. Það gefur mér mikið sem þjálfara. Við megum ekki einblína of mikið á það neikvæða. Ég veit að stuðningsmennirnir eru vonsviknir og þeir hafa rétt á því. Við munum reyna að bæta fyrir þetta á morgun."

Hareide segist ekki þekkja nokkuð verra í fótboltanum en að tapa leikjum.

„Það er erfitt að tapa, ég hata þá tilfinningu en hún er sú versta í fótboltanum. Leikmennirnir sem gerðu mistök, við þurfum á þeim að halda og þurfum að styðja þá. Liðið tekur þetta mikið inn á sig og við verðum að lyfta þeim upp andlega. Ef ég fer að ásaka leikmenn um að vera lélegir eða liðið að vera lélegt, þá er það ekki gott. Það er mín ábyrgð að lyfta þeim upp. Ég vel þá í liðið og verð að standa með þeim, og ég mun gera það alveg til enda. Þetta eru mínir leikmenn og ég vil að þeir standi sig eins vel og þeir geta. Ég vil að liðið standi sig eins vel þeir og geta. Við verðum að reyna að bæta okkur og ég veit að við getum það."

Möguleikarnir litlir sem engir í riðlinum
Möguleikarnir á að ná öðru sætinu í riðlinum eftir tapið í Lúxemborg eru litlir sem engir. Hareide lítur samt á það þannig að leikurinn á morgun sé mikilvægur fyrir framhaldið því góðar líkur eru á því að íslenska liðið fari í umspil í mars. Þá verður að vera búið að móta sterkt lið og liðsheild.

„Við verðum að velja bestu leikmennina og við þurfum að finna lið sem vinnur vel saman. Við verðum líka að blóðga ungu leikmennina fyrir framtíðina. Það er önnur undankeppni framundan eftir næsta sumar. Þetta er ekki búið, við getum horft í umspilið í mars. Við þurfum að fá stöðugleika í liðið og góða frammistöðu fyrir þá leiki. Það er mjög mikilvægt," sagði Hareide.

„Við þurfum góða frammistöðu og góð úrslit. Við verðum að vinna leiki og við verðum að standa okkur vel. Það er mikilvægt að tapa ekki okkur, við verðum að hafa trú. Liðið verður að hafa trú á sér. Við erum á heimavelli og við vitum að við spiluðum vel síðast þegar við vorum hérna. Við verðum að gera það aftur. Við erum með unga og reynda leikmenn í hópnum. Við verðum að standa okkur vel núna en við verðum líka að byggja lið til framtíðar. Við þurfum kannski að sætta okkur við að leikmenn geri mistök á meðan við erum að byggja upp."

Hareide benti á það hefði vantað lykilmenn á borð við Albert Guðmundsson, Sverri Inga Ingason og Willum Þór Willumsson í síðasta leik. Aðrir leikmenn fengu tækifærið, fengu reynslu.

Hann segir að það sé mikilvægt að vinna leiki og það yrði ansi gott að ná í sigur gegn Bosníu.

„Sigur myndi hjálpa okkur mikið að fá sjálfstraust. Fótboltinn er skrítinn stundum. Það munar litlu á sigri og tapi. En þegar þú vinnur leiki, þá færðu meiri trú á sjálfum þér. Engir leikir eru auðveldir og sérstaklega í landsliðsfótbolta þar sem allir andstæðingar eru erfiðir. Minnir þjóðir eru að verða betri og betri. Ef við erum of spenntir að vinna, þá verðum við kannski villtir og töpum leiknum. Við verðum að byggja upp sjálfstraust í liðinu, við þurfum að tengja varnarleikinn betur og sóknarleikinn líka. Við megum ekki vera opnir og heimskir í okkar stöðum. Við þurfum að læra það. Í landsliðsfótbolta færðu fá færi sem þú verður að taka. Ef þú tekur þau ekki, þá geturðu tapað leiknum. Við sáum það gegn Slóvakíu. Við hefðum unnið þann leik ef við hefðum nýtt færin. Bosnía hefur lent í vandræðum með meiðsli og leikbönn. Við getum klárlega barist um þrjú stig."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner