Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 10. október 2019 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rooney og Owen efstir en svo kemur Foden í 196. sæti
Phil Foden.
Phil Foden.
Mynd: Getty Images
Sam Cunningham, fótboltafjölmiðlamaður INews, segir í pistli, sem hann skrifar síðastliðinn þriðjudag, að það sé kominn tími fyrir Phil Foden að yfirgefa Manchester City. Foden þykir mjög efnilegur miðjumaður.

Hann segir frá tölfræði, sem verður að teljast nokkuð sláandi. Þegar greinin er skrifuð er Foden 19 ára og 164 daga gamall. Cunningham segir frá því hvaða leikmenn hafa spilað flestar mínútur í ensku úrvalsdeildinni á aldri Foden.

Wayne Rooney er efstur á listanum með 5722 mínútur. Michael Owen er í öðru sæti og eru bæði Raheem Sterling og Rio Ferdinand á meðal tíu efstu.

Þú verður að fara langt niður listann til að finna nafn Foden. Hann er í 196. sæti með 384 mínútur.

Pep Guardiola, stjóri Manchester City, virðist hafa miklar mætur á Foden og sagði hann nýverið að hann myndi ekki selja hann fyrir 500 milljónir punda. Cunningham gefur lítið fyrir þessi orð spænska knattspyrnustjórans.

„Nýverið þegar hann bað hann afsökunar fyrir að spila honum ekki, þá nefndi Guardiola leikmenn sem eru á undan Foden í goggunarröðinni. Kevin De Bruyne, Rodri, Bernardo Silva, David Silva, Ilkay Gundogan, sagði Guardiola í þessari röð. Hann nefndi ekki Fernandinho, annan leikmann sem er á undan enska miðjumanninum. Hann er í augnablikinu að spila miðvörð vegna meiðslavandræða," skrifar Cunningham.

Manchester City keypti spænska miðjumanninn Rodri fyrir metfé síðasta sumar.

„Ef stjórinn væri að hugsa um þróun Foden þá hefði hann ekki keypt sjötta leikmanninn sem getur spilað í hans stöðu fyrir metfé hjá félaginu."

Höfundur greinarinnar skrifar um það að á meðan aðrir efnilegir enskir leikmenn séu í A-landsliðinu, þá þurfi Foden að spila með U21 landsliðinu vegna lítils spiltíma hjá Manchester City.

„Gareth Southgate heldur áfram að þróa hópinn fyrir EM 2020 með því að taka eldri leikmenn sem hafa ekki verið að spila sérstaklega úr hópnum og setja ferskar fætur inn. Dele Alli, Jesse Lingard og Kyle Walker út. Fikayo Tomori og Tammy Abraham koma inn í hópinn. Mason Mount, svipaður leikmaður og Foden, er á góðri leið með að aðlagast A-landsliðshópnum."

„Tomori, Abraham og Mount hafa blómstrað undir stjórn Frank Lampard hjá Chelsea: ímyndið ykkur hvað Foden gæti gert hjá fyrrum enska landsliðsmiðjumanninum. Eða hjá Steven Gerrard, á láni hjá Rangers, sem eru sagðir hafa boðið í hann," segir Cunningham, en grein hans má lesa í heild sinni hérna.

Höfundur telur greinilega að Foden þurfi að komast frá Manchester City, líkt og Jadon Sancho gerði þegar hann fór til Borussia Dortmund árið 2017. Sancho er að slá í gegn með Dortmund og er í enska landsliðinu.

Á Foden að bíða eftir tækifærinu með uppeldisfélaginu eða fara eitthvað annað og reyna að fá fleiri mínútur inn á fótboltavellinum?


Athugasemdir
banner
banner