þri 11. ágúst 2020 15:30
Magnús Már Einarsson
Kristján Atli: Nauðsynlegt að fá inn fjórða miðvörðinn til Liverpool
Kostas Tsimikas skrifaði undir hjá Liverpool í gær.
Kostas Tsimikas skrifaði undir hjá Liverpool í gær.
Mynd: Getty Images
Kristján Atli Ragnarsson.
Kristján Atli Ragnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Liverpool keypti í gær gríska vinstri bakvörðinn Kostas Tsimikas í sínar raðir frá Olympiakos á 11,75 milljónir punda en honum er ætlað að veita Andy Robertson samkeppni um stöðu í liðinu. Fótbolti.net heyrði í Kristjáni Atla Ragnarssyni, stuðningsmanni Liverpool og ræddi kaupin við hann.

„Ég veit ekkert um Tsimikas og á erfitt með að vera spenntur eða svekktur með leikmann sem ég hef aldrei séð spila. Hann ku þó vera hátt skrifaður innan þjálfarasveitar Liverpool, en aðstoðarþjálfari Klopp, Pep Lijnders, kynntist honum víst vel þegar hann var á láni í Hollandi fyrir nokkrum árum. Það er því ljóst að Liverpool hafa fylgst með honum í nokkur ár og þetta er ekki flýtiákvörðun," segir Kristján Atli.

„Í grunninn líst mér mjög vel á að fá leikmann sem tikkar í mörg box; hann er ungur og hungraður í að sanna sig, hefur spilað með landsliði Grikkja og í Evrópu með Olympiakos, en hefur einnig reynslu af því að spila utan Grikklands (í Hollandi). Verandi varakostur fyrir Andy Robertson þá kostaði hann skynsamlega lítið þannig að ef hann spjarar sig ekki er tapið ekki stórt, en ef hann slær í gegn getur innkaupastjórn Liverpool stært sig af því að hafa fundið enn einn óslípaða demantinn á tombóluverði."

„Gleymum því heldur ekki að Robertson kostaði enn minna en Tsimikas og kom frá fallliði Hull City. Við eigum allavega tvo vinstri bakverði fyrir næsta tímabil og James Milner getur andað léttar, enda löngu hættur að nenna að spila vinstri bakvörð."


Býst við öðrum nýjum varnarmanni
Liverpool hefur ekki mikið fjármagn til leikmannakaupa í sumar vegna áhrifa kórónuveirunnar. Kristján Atli telur að félagið muni þó bæta við öðrum varnarmanni í sumar.

„Ég býst við að Liverpool kaupi hægrisinnaðan miðvörð í stað Dejan Lovren. Það er enn vandamál hversu illa Joe Gomez og Joel Matip hefur gengið að halda sér heilum yfir heilt tímabil við hlið Virgil Van Dijk. Í raun má segja að ein stærsta ástæðan fyrir velgengni Liverpool síðustu 2-3 ár sé hversu vel hefur gengið að halda lykilmönnum heilum heilsu, en miðvarðastaðan við hlið Van Dijk hefur verið undantekningin frá þeirri reglu. Það er því nauðsynlegt að fá inn fjórða miðvörðinn, einhvern sem er nógu góður til að gera tilkall og keppa við þá um sæti í liðinu án þess að senda Gomez þráðbeint á bekkinn," segir Kristján Atli.

„Ég býst aftur við að innkaupastjórnin rýni í tölurnar og finni áhættulítinn kost sem hefur allt að vinna, á lítinn pening. Ég veit ekki hvað Liverpool gerir meira, ef nokkuð, í þessum stutta og skrýtna glugga. Ungir leikmenn eins og Curtis Jones og Harvey Elliott munu fá stærra hlutverk á næsta tímabili, og mögulega verður Rhian Brewster einnig í hóp, en hann sló í gegn á láni hjá Swansea á nýlokinni leiktíð."

„Ég sé Liverpool ekki kaupa miðju- eða sóknarmenn nema einhver fari. Klopp mun frekar veðja á ungu leikmennina og vonast til að fá meira frá mönnum eins og Xherdan Shaqiri, sem var allt of mikið meiddur síðasta vetur, og Takumi Minamino sem hefur verið hálfgerð súkkulaðikleina hingað til en við ætlumst til stórra hluta frá strax í haust."

„Mín spá? Kostas Tsimikas og miðvörður sem getur spilað hægri bakvörð koma inn í stað Adam Lallana og Dejan Lovren, sem þegar eru farnir."

Athugasemdir
banner
banner
banner