Hinn 19 ára gamli Jamaldeen Jimoh-Aloba var hetja Aston Villa þegar liðið vann dramatískan sigur á Salzburg í lokaumferð deildarkeppni Evrópudeildarinnar. Aston Villa lenti tveimur mörkum undir en Morgan Rogers og Tyrone Mings skoruðu áður en Jimoh-Aloba tryggði liðinu sigurinn.
Jimoh-Aloba var að spila sjötta leik sinn fyrir Aston Villa en þetta var fyrsta markið hans fyrir liðið. Hinn 18 ára gamli George Hemmings var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn.
Jimoh Aloba kom inn á ásamt hinum tvítuga Kaden Young sem lagði einmitt upp sigurmarkið.
„Þetta er yndislegt augnablik fyrir Jimoh. Við sjáum allir hversu mikið hann leggur á sig daglega. Stjórinn setur miklar kröfur á hann og við hinir líka því við vitum hvað hann getur," sagði Mings, varnarmaður Aston Villa eftir leikinn.
„Við fengum tækifæri til að spila George, Jamal og Kaden, Jamal skoraði auðvitað sem er stórkostlegt," sagði Unai Emery.
„Það er nauðsynlegt að gefa þeim tækifæri. Þetta var gott tækifæri fyrir þá að fá reynslu og spila eins og við þurfum þá til að gera. Að ná í sigur, spila þessum ungu og búa til eitthvað með stuðningsmönnunum í þessari keppni er mjög mikilvægt."
Athugasemdir



