Tottenham vill eftirsóttan Sterling - Burnley, Juventus og Napoli hafa einnig áhuga - Chelsea gæti keypt Bellingham frá Real Madrid -
banner
   lau 31. janúar 2026 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Hneykslaður Benzema neitar að spila
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Hinn 38 ára gamli Karim Benzema verður samningslaus eftir tímabilið og neitaði að spila síðasta leik Al-Ittihad vegna deilna við stjórn sádi-arabísku deildarinnar sem sér um samningsmál launahæstu leikmannanna.

Benzema og umboðsteymi hans segja að sér hafi verið lofaður 'jafn góður eða betri' samningur, en þess í stað fékk leikmaðurinn launalaust samningstilboð á dögunum.

Í því samningstilboði myndi Benzema einungis fá greitt fyrir ímyndarrétt sinn.

Benzema tók þessu samningstilboði nærri sér og er mjög ósáttur með Michael Emenalo, yfirmann fótboltamála hjá sádi-arabísku deildinni sem starfaði áður fyrir Chelsea og Mónakó.

Benzema var því ekki með í 2-2 jafntefli gegn Al-Fateh á dögunum og æfir einn síns liðs.

Franski framherjinn var í lykilhlutverki er Al-Ittihad vann sádi-arabísku deildina í annað sinn á þremur árum á síðustu leiktíð, þar sem hann kom með beinum hætti að 30 mörkum í 29 leikjum til að hjálpa liðinu að landa titlinum.

Hann er búinn að skora 16 mörk í 21 leik í öllum keppnum á yfirstandandi leiktíð.

„Ég er hér til að þjálfa leikmenn og undirbúa þá fyrir leiki, allt annað er úr mínum höndum," sagði Sergio Conceicao þjálfari Al-Ittihad eftir jafnteflið gegn Al-Fateh.

Ittihad er í sjötta sæti sádi-arabísku deildarinnar með 31 stig eftir 18 umferðir, heilum 15 stigum á eftir toppliði Al-Hilal.

Talið er að Benzema ætli ekki að spila aftur fyrir Ittihad nema honum verði boðinn sá samningur sem honum hafði verið lofað.
Athugasemdir
banner