Barcelona undirbýr tilboð í Lisandro Martinez - Curtis Jones orðaður við Inter - Camavinga orðaður við Arsenal og Liverpool
banner
   lau 31. janúar 2026 11:03
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Andri Lucas snýr til baka - „Vonandi betri tímar framundan"
Mynd: Blackburn Rovers
Andri Lucas Guðjohnsen hefur jafnað sig af meiðslum sem hann varð fyrir rétt fyrir jól og verður með Blackburn þegar liðið fær Hull í heimsókn í Championship deildinni í dag.

Andri Lucas gekk til liðs við Blackburn frá Gent í sumar en hann er markahæsti leikmaður liðsins með sjö mörk í 17 leikjum í Championship deildinni.

„Ég get komið aftur og haldið áfram þar sem frá var horfið, við þurfum á öllum að halda út tímabilið. Við getum gert vel, haldið áfram að vaxa og verið betri þegar allir eru til taks," sagði Andri Lucas í samtali við Blackburn.

„Stuðningsmennirnir hafa verið frábærir hingað til, ég hef átt frábær augnablik með þeim. Það er mikilvægt að við stöndum saman í baráttunni sem við erum í og vonandi eru betri tímar framundan."

„Næstu leikir eru gríðarlega mikilvægir. Leikmennirnir hafa rætt saman um hvað við þurfum að gera betur fótboltalega og hugarfarslega séð. Við erum að fá alla leikmennina aftur og getum vonandi endað tímabilið vel," sagði Andri Lucas að lokum.

Blackburn er í fallsæti, stigi frá öruggu sæti, en liðið á heimaleiki gegn Hull, sem er í baráttu um að komast upp, og Sheffield Wednesday, sem er í botnsætinu.



Athugasemdir
banner