Barcelona undirbýr tilboð í Lisandro Martinez - Curtis Jones orðaður við Inter - Camavinga orðaður við Arsenal og Liverpool
banner
   lau 31. janúar 2026 12:00
Kári Snorrason
Viðtal
Hakaði í öll boxin á ferlinum - „Leið ekki vel með að vera byrði fyrir Aftureldingu og sjálfan mig“
Oliver lagði skóna á hilluna í síðustu viku.
Oliver lagði skóna á hilluna í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver lék 17 leiki í deild- og bikarkeppnum með Aftureldingu á síðustu leiktíð.
Oliver lék 17 leiki í deild- og bikarkeppnum með Aftureldingu á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég hef fengið allt það sem ég vildi út úr ferlinum, þó hann hefði mátt vera lengri hef ég átt gríðarlega góðar stundir.“
„Ég hef fengið allt það sem ég vildi út úr ferlinum, þó hann hefði mátt vera lengri hef ég átt gríðarlega góðar stundir.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það sem ég er mjög ánægður með er að vinna Íslandsmeistaratitilinn sem byrjunarliðsmaður og með vinum sínum.“
„Það sem ég er mjög ánægður með er að vinna Íslandsmeistaratitilinn sem byrjunarliðsmaður og með vinum sínum.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver á að baki 2-A landsleiki en hann var jafnframt fyrirliði U21-liðsins á sínum tíma.
Oliver á að baki 2-A landsleiki en hann var jafnframt fyrirliði U21-liðsins á sínum tíma.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver segir þjálfaradrauminn lengi blundað í sér.
Oliver segir þjálfaradrauminn lengi blundað í sér.
Mynd: KB
Oliver Sigurjónsson lagði skóna á hilluna í síðustu viku eftir að hafa glímt við erfið meiðsli undanfarin ár. Oliver, sem er þrítugur, er uppalinn hjá Breiðabliki vann tvo Íslandsmeistaratitla með uppeldisfélaginu.

Hann lék jafnframt með AGF og síðar Bodø/Glimt, úti í atvinnumennsku áður en hann sneri aftur heim. Hann á að baki 2-A landsleiki og 49 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Síðasta vetur færði hann sig um set og fór í Mosfellsbæ. Á liðnu tímabili lék hann 17 leiki með Aftureldingu, sem féll úr Bestu deildinni. Oliver hefur nú snúið sér að þjálfun og verður í þjálfarateymi 2. flokks Breiðabliks.

Fótbolti.net ræddi við Oliver um ákvörðunina að leggja skóna á hilluna.

„Elskaði síðasta tímabil inni á vellinum“
„Ég er búinn að vera of mikið meiddur undanfarin þrjú ár, líklegast fjórum sinnum í hægri kálfanum. Ég var ekki að fá nægilega góðar upplýsingar og var ekki bjartsýnn á að þetta myndi lagast til framtíðar. Mér var byrjað að líða illa með að vera alltaf í ræktinni en vera talinn lykilmaður hjá Aftureldingu.

Mér leið ekki vel með að vera einhver byrði á Aftureldingu og í mínum eigin huga. Mig langaði að vera meira frjáls, auðvitað langar mig að spila fótbolta en mig langar ekki að vera í ræktinni endalaust og geta ekki treyst mínum eigin líkama í að vera heill.“


„Þegar meiðslin fóru að hrinjast undir lok tímabils íhugaði ég hvort að maður ætti að gera þetta eða eitthvað annað. Ég hef svo rosalega gaman að því að spila fótbolta en aftur á móti finnst mér rosalega leiðinlegt að vera í svona mikið í ræktinni. Ég elskaði síðasta tímabil inni á vellinum og íhugaði þetta ekki fyrr en undir lokin.“

Meiðsli í desember gerðu útslagið
„Ég byrjaði að æfa í desember og meiddist síðar í mánuðinum. Ég fæ svo mikinn verk þegar ég skokka hægt yfir lengri tíma. En ég hef ekkert æft frá því í desember. Það var því enn meiri ástæða fyrir því að spyrja Magga þjálfara og Gísla formann Aftureldingar um hvað þeim fannst. Þeir studdu við bakið á mér í því sem ég vildi gera. Þetta var eiginlega útslagið, fyrst þetta var búið að gerast fimm sinnum á síðustu þremur árum.“

„Auðvitað vill maður hætta á sínum forsendum en ég ætla að eigna mér að hafa tekið þessa ákvörðun sjálfur. Ég hefði alveg getað þraukað lengur og verið í afneitun - Verið lengur í ræktinni og óvissa um hvort að maður getur spilað eða ekki. Jú, auðvitað vill maður hætta á sínum forsendum en ég er ekki að öskra í kodda eða gráta á nóttunni yfir þessu.“

Útilokar ekki endurkomu á völlinn
„Jákvæðu fréttirnar eru kannski þær að ég fór til bæklunarlæknis í síðustu viku og fer í aðgerð á kálfa í febrúar. Vonandi get ég eitthvað spriklað undir lok tímabils. Og átt góða stund með börnunum og verið heilbrigður í framtíðinni, það er ákveðið frelsi í því.

Ef þetta lagast eftir þessa aðgerð útiloka ég ekki að spila í einhverjum neðri deildum. Ég hef enn mjög gaman af því að spila fótbolta og svo lengi sem þetta er skemmtilegt þá útiloka ég það ekki. Ég horfi á þetta að ég er hættur í fótbolta að atvinnu og þiggja laun fyrir.“


Uppfyllti öll markmiðin
„Ég er mjög stoltur af ferlinum. Þegar maður var ungur strákur vildi maður verða atvinnumaður, spila landsleiki og lyfta titli með Breiðabliki. Ég er búinn að haka í öll þau box. Ég hef fengið allt það sem ég vildi út úr ferlinum. Þótt hann hefði mátt vera lengri hef ég átt gríðarlega góðar stundir.

Ég hef kynnst frábæru fólki og eignast dýrmætan vinskap. Ég er stoltur af sjálfum mér fyrir alla þá þrotlausu vinnu sem ég lagði í ferilinn og fyrir að hafa verið metnaðarfullur alla leið. Margir leikmenn líta til baka og sjá eftir því að hafa kannski ekki lagt meiri vinnu í hlutina.

Ég bý við það andlega frelsi að vita að ég gerði mitt allra besta á öllum æfingum. Ég held að það séu fáir sem geta sagt að ég hafi ekki lagt allt sem ég gat í hverja æfingu og hvern einasta leik. Ég gerði allt úr því sem ég gat stjórnað á mínum ferli.

Það er engin eftirsjá úr því sem ég get stjórnað. Auðvitað eru einhverjar eftirsjár að hafa ekki fengið fleiri tækifæri í atvinnumennsku, en ekkert sem ég get stjórnað. En þetta er það sem ég vil kenna mönnum þegar ég fer að þjálfa - ekki vera með neina eftirsjá. Vera alltaf undirbúnir svo að menn ganga stoltir frá borði.“


„Horfði á mig sem einhvers konar lúser“
Oliver segir tvo Íslandsmeistaratitla með Breiðabliki standa upp úr á ferlinum. Hann viðurkennir þó að hafa oft upplifað sig eins og lúser eftir að hafa endað í öðru sæti oftar en honum fannst eðlilegt.

„Það voru ekki rosalega margir, en ég sjálfur upplifði mig stundum eins og lúser. Þegar maður náði aldrei markmiðum sínum. Frá því að ég var 15-25 ára endaði ég í 2. sæti í átta skipti. Og maður horfði á sig sem einhvers konar lúser. Það var eitthvað sem mótiveraði mann áfram. Það sem ég er mjög ánægður með er að vinna Íslandsmeistaratitilinn sem byrjunarliðsmaður og með vinum sínum.“

Auðvitað standa landsleikirnir líka upp úr. Ég á leinn leik í þessu janúarverkefni. En ég á líka landsleik gegn Slóvakíu með Gylfa og öllum þessum köllum, sem er mjög stórt. Ég er mjög stoltur að hafa komist í þann hóp. Síðan náði ég ekki fleiri leikjum í þessum janúarverkefnum vegna meiðslum og gæðum líka.“


Verið í þjálfarapælingum frá 13 ára aldri
Oliver, sem er verkfræðimenntaður, er að taka við starfi hjá 2. flokki karla hjá Breiðabliki. Hann er búinn með UEFA B gráðu og segir þjálfaradrauminn lengi blundað í sér.

„Ég þjálfaði þegar ég var 14-15 ára og þegar ég kom heim á láni 2018. Þetta hefur lengi blundað í mér. Þetta er fínn breytingarfasi, fyrst að þessi ákvörðun að hætta lá fyrir. Þeir sem þekkja mig vel vita að ég hef verið í þjálfarapælingum frá því að ég var þrettán ára, ég hlakka til að takast á við þetta verkefni,“ segir Oliver að lokum.
Athugasemdir
banner