Stefán Teitur í sigurliði
Logi Tómasson og Andri Fannar Baldursson léku allan leikinn er Kasimpasa og Samsunspor mættust í efstu deild í Tyrklandi í dag.
Staðan hélst markalaus í jöfnum slag þar sem lítið var um færi, allt þar til í uppbótartíma venjulegs leiktíma.
Það var þá sem gestunum í liði Samsunspor tókst að gera sigurmark. Jaures Assoumou skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Antoine Makoumbou frá vinstri vængnum, en það var Logi sem gerði vel að koma boltanum á Makoumbou.
Sjáðu það helsta úr leiknum
Samsunspor er í sjötta sæti deildarinnar eftir sigurinn, með 30 stig úr 20 umferðum. Kasimpasa er í fallbaráttu með 16 stig.
Til gamans má geta að toppbaráttulið Trabzonspor átti leik í dag og náði jafntefli eftir að hafa lent undir gegn Antalyaspor. Paul Onuachu, fyrrum leikmaður Southampton, skoraði jöfnunarmarkið úr vítaspyrnu. Trabzonspor er í þriðja sæti, einu stigi á eftir Fenerbahce og fjórum stigum á eftir Galatasaray sem eiga bæði leik til góða.
Það var annar Íslendingur sem mætti til leiks í dag þegar Hannover heimsótti Magdeburg í næstefstu deild í Þýskalandi. Stefán Teitur Þórðarson fékk að spila síðustu 20 mínúturnar í naumum sigri.
Hannover er í fimmta sæti með 35 stig eftir 20 umferðir, fjórum stigum á eftir toppliði Schalke sem á leik til góða.
Að lokum sat Danijel Dejan Djuric á bekknum í jafntefli Istra 1961 gegn Lokomotiv Zagreb í króatísku deildinni. Istra er í þriðja sæti með 30 stig eftir 20 umferðir.
Athugasemdir




