Arsenall vill fá Kudus - Man Utd skoðar að losa Zirkzee - Maignan til City og hvað verður um Davies og David?
   fös 11. október 2024 10:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimir ekki vandamálið - „Hugleysingjar hafa ráðist á hann"
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: EPA
Robbie Brady gerði sigurmark Írlands í gær.
Robbie Brady gerði sigurmark Írlands í gær.
Mynd: EPA
Heimir Hallgrímsson stýrði Írlandi til sigurs í fyrsta sinn í gær þegar liðið vann 1-2 útisigur gegn Finnlandi. Þetta var sterkur endurkomusigur eftir að liðið hafði lent undir.

Það er mikil pressa á Heimi að ná í úrslit og mikil ánægja með leikinn í gær. Fyrir leikinn var hann farinn að fá mikla gagnrýni þrátt fyrir að hafa stýrt írska liðinu bara í tveimur leikjum.

Pat Dolan, fyrrum leikmaður og þjálfari úr írska boltanum, segir að frammistaðan í gærkvöldi hafi verið töfrum lík hjá lærisveinum Heimis. Hann stendur með íslenska þjálfaranum.

„Allt fólkið er búið að vera að tala en ég er svo ánægður fyrir hönd Heimis Hallgrímssonar," sagði Dolan. „Þessi sigur sýnir hversu góða vinnu Heimir er búinn að vera að vinna á bak við tjöldin."

„Hallgrímsson hlýtur að hafa velt því fyrir sér, miðað við alla þá gagnrýni sem hann hefur fengið, hvað hann var eiginlega að ganga út í. Úrslitin ráða því hversu lengi hann verður. En ég skal segja ykkur það, Heimir Hallgrímsson er ekki vandamálið í írskum fótbolta. Ég vona að hann sé lausnin. Góður þjálfari, góður drengur. Og þetta voru góð úrslit. Það er langt síðan við skrifuðum þau orð. Og það er yndislegt að geta gert það aftur," segir Dolan.

Hann segir þá menn sem hafa ráðist að Heimi - til að mynda fyrrum landsliðsmanninn Richard Dunne - vera heigla.

„Fótbolti hefur alltaf snúist um úrslit en Heimir gekk inn í óreiðu og vonum að hann nái að láta það ganga upp einhvern veginn. Einhverjir hugleysingjar hafa ráðist á þennan vinalega Íslending. Hann hefur verið í starfinu í fimm mínútur og þið verðið að gefa honum tækifæri. Hann var undir pressu og þurfti að standa sig, og hann gerði það."

„Þetta er sigur sem þjóðin, liðið og þjálfarinn þurftu á að halda," skrifar Dolan að lokum en hann hrósar Heimi mikið fyrir leikinn í gær, til að mynda fyrir hálfleiksræðuna og fyrir skiptingarnar.

Heimir hefur byrjað í brekku en þetta var frábær sigur og vonandi eitthvað sem hægt er að byggja á. Næst á Írland leik í Grikklandi gegn heimamönnum sem unnu Englendinga á Wembley í gær.
Athugasemdir
banner
banner