mið 12. júní 2019 10:30
Arnar Daði Arnarsson
Gylfi hrósaði Jóni Daða í hástert
Icelandair
Gylfi Þór
Gylfi Þór
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Landsliðsmaðurinn, Gylfi Þór Sigurðsson hrósaði Jóni Daða Böðvarssyni mikið í viðtölum eftir 2-1 sigur Íslands á Tyrkjum á Laugardalsvelli í gærkvöldi.

Jón Daði var að leika sinn fyrsta leik síðan í febrúar en hann hefur verið að glíma við meiðsli síðan þá. Jón Daði kom ekkert við sögu í sigrinum gegn Albaníu á laugardaginn en var síðan í byrjunarliðinu í gærkvöldi.

„Jón Daði var geggjaður í þessum leik. Hann var ekki búinn að spila lengi og það kom mér á óvart hversu vel hann spilaði. Það er mjög þægilegt fyrir mig að spila með honum," sagði Gylfi Þór í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn í gær.

„Hann heldur boltanum mjög vel uppi, fær gul spjöld á andstæðinginn, innköst, aukaspyrnur og ógnar alltaf fyrir aftan hafsentana og býr til svæði. Hann gefur liðinu tíma til þess að koma með boltann upp og á mikið hrós skilið," sagði Gylfi.

Íslenska liðið er með níu stig í riðlinum eftir fjórar umferðir, jafn mörg stig og Tyrkir og Frakkland.


Gylfi: Gott að taka sex stig til Ítalíu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner