Athletic Bilbao hefur tryggt sér farseðilinn í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir að liðið sneri einvíginu gegn Roma sér í hag og vann öruggan 3-1 sigur í Baskalandi.
Ótrúlega umdeild ákvörðun snemma leiks varð Roma að falli er þýski miðvörðurinn Mats Hummels fékk að líta beint rautt spjald fyrir tæklingu á hinum 24 ára gamla Maroan Sannadi.
Hummels vissulega kom sér sjálfur í þessi vandræði með ömurlegri sendingu en reyndi að redda sér með því að renna sér í tæklingu. Af endursýningu að dæma virðist hann sparka í boltann áður en hann tók manninn niður. VAR skoðaði atvikið og taldi það vera svo að hann hafi rænt Athletic upplögðu marktækifæri og tæklinguna groddaralega og Hummels því sendur í sturtu.
Liðsmunurinn varð Roma of mikill og tókst Nico Williams að koma Athletic í 1-0 á lokamínútum fyrri hálfleiks er hann setti boltann í Angelino og í netið.
Yuri Berchiche bætti við öðru eftir hornspyrnu á 68. mínútu og þá gerði Nico út um einvígið með laglegri vippu yfir Mile Svilar þegar átta mínútur voru eftir.
Roma vann fyrri leikinn 2-1 og þurfti því tvö mörk til þess að komast í framlengingu. Leandro Paredes náði að minnka muninn með marki úr víti undir lokin en lengra komst Roma ekki og er það því Athletic sem fer áfram.
Eintracht Frankfurt flaug áfram með því að vinna Ajax, 4-1, í kvöld, en samanlagður sigur þýska liðsins var 6-2.
Mario Götze skoraði tvö fyrir Frankfurt en franski framherjinn Hugo Ekitike var einnig öflugur með mark og stoðsendingu.
Lazio dugði 1-1 jafntefli gegn Viktoria Plzen í Róm í kvöld. Leikurinn var á leið í framlengingu þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiks en Alessio Romagnoli sá til þess að spara sínum mönnum orku með því að stanga hornspyrnu Mattia Zaccagni í netið.
Ítalska liðið vann einvígið 3-2 og mun mæta norska liðinu Bodö/Glimt í 8-liða úrslitum.
Bodö/Glimt, sem hefur náð eftirtektarverðum árangri í Evrópu síðustu ár, henti gríska stórveldinu Olympiakos úr keppni þrátt fyrir að hafa tapað 2-1 í Aþenu.
Norska liðið vann nefnilega 3-0 á heimavelli sínum. Bodö/Glimt fór meira að segja með eins marks forystu inn í hálfleikinn í kvöld en tvö mörk frá Roman Yaremchuk héldu vonum Olympiakos á lífi.
Sú von hvarf hins vegar þegar Kostas Tzolakis, markvörður liðsins, var rekinn af velli og komst Olympiakos ekki lengra. Bodö/Glimt heldur áfram að skrifa söguna og fær nú það erfiða verkefni að mæta Lazio.
Lazio 1 - 1 Plzen (Samanlagt, 3-2)
0-1 Pavel Sulc ('52 )
1-1 Alessio Romagnoli ('77 )
Olympiakos 2 - 1 Bodo-Glimt (Samanlagt, 2-4)
0-1 Kasper Hogh ('36 )
1-1 Roman Yaremchuk ('53 )
2-1 Roman Yaremchuk ('65 )
Rautt spjald: Konstantinos Tzolakis, Olympiakos ('89)
Eintracht Frankfurt 4 - 1 Ajax (Samanlagt, 6-2)
1-0 Jean Matteo Bahoya ('7 )
2-0 Mario Gotze ('25 )
3-0 Hugo Ekitike ('67 )
3-1 Kenneth Taylor ('78 )
4-1 Mario Gotze ('82 )
Athletic 3 - 1 Roma (Samanlagt, 4-2)
1-0 Nico Williams ('45 )
2-0 Yuri Berchiche ('68 )
3-0 Nico Williams ('82 )
3-1 Leandro Paredes ('90 , víti)
Rautt spjald: Mats Hummels, Roma ('11)
Athugasemdir