Frimpong orðaður við Liverpool - City reynir við Reijnders - Man Utd ætlar ekki að losa sig við Amorim
   þri 13. maí 2025 16:30
Elvar Geir Magnússon
Heimir Hallgríms meðal áhorfenda þegar Alexander sló metið
Siggi Raggi, Gummi Hreiðars og Heimir Hallgríms.
Siggi Raggi, Gummi Hreiðars og Heimir Hallgríms.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Írlands, var mættur í Laugardalinn á laugardag og sá sína menn í ÍBV mæta KR í Bestu deildinni.

Heimir varð þar vitni af sögulegri stund þegar Alexander Rafn Pálmason varð yngsti leikmaður sögunnar til að skora í efstu deild á Íslandi. Hann hrifsaði það met af Eiði Smára Guðjohnsen.

Heimir var í góðum félagsskap á vellinum en með honum var hans dyggasti aðstoðarmaður, Guðmundur Hreiðarsson, sem nú er markvarðaþjálfari írska landsliðsins.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson var einnig með þeim félögum.

Heimir fékk ekki úrslitin sem hann vildi því KR vann 4-1 en hann vonast eftir því að úrslitin verði hagstæðari fyrir hans menn þegar liðin mætast aftur annað kvöld, þá í Mjólkurbikarnum.

Í næsta mánuði er komið að næstu landsleikjum Írlands undir stjórn Heimis en liðið mætir þá Senegal og Lúxemborg í vináttulandsleikjum. Í síðasta landsliðsglugga vann Írland tvo sigra gegn Búlgaríu og hélt sér í B-deild Þjóðadeildarinnar.
Athugasemdir
banner