Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 13. júní 2021 14:14
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Staðfestir að Eriksen fór í hjartastopp - „Er allt í lagi með ykkur?"
Mynd: EPA
Morten Boesen, læknir danska landsliðsins, hefur staðfest að Christian Eriksen, leikmaður liðsins, fór í hjartastopp í leik gegn Finnlandi í gær.

Eriksen féll til jarðar undir lok fyrri hálfleiks í leik gegn Finnlandi, í fyrsta leik liðanna á Evrópumótinu.

Það er ekki annað hægt að segja en að sjúkrastarfsmenn á vellinum og liðsfélagar Eriksen séu hetjur.

Eriksen fékk skyndihjálp á vellinum og var svo fluttur á sjúkrahús þar sem líðan hans er stöðug.

„Hann var farinn," sagði Boesen á blaðamannafundi í dag. „Hversu nálægt vorum við að missa hann alveg? Ég veit það ekki. Ég get ekki svarað því nákvæmlega af hverju þetta gerðist."

Eriksen fékk eitt stuð úr hjartastuðtæki og það spilaði stóran þátt í að bjarga lífi hans. Það hversu fljótt hann fékk aðstoð, það hafði líka gríðarlega mikil áhrif á að lífi hans var bjargað.

Eriksen er núna við góða líðan á spítala þar sem hann er að gangast undir rannsóknir. Það er óvíst hvort hann geti spilað fótbolta aftur, en það er náttúrulega bara aukaatriði núna.

Kasper Hjulmand, landsliðsþjálfari Danmerkur, sat einnig fyrir svörum. Hann segir að Eriksen hafði sagt við sig: „Ég man ekki mikið en ég hef meiri áhyggjur af ykkur. Er allt í lagi með ykkur?"

„Þannig er Christian... það var gott að sjá hann brosa."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner