Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
banner
   þri 13. ágúst 2024 22:17
Brynjar Ingi Erluson
Víkingur hafnaði tilboði KR í Gísla Gottskálk
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur hafnaði í dag tilboði KR í Gísla Gottskálk Þórðarson en þetta herma heimildir Fótbolta.net.

Fyrr í kvöld var greint frá því að Valur væri búið að leggja fram tilboð í leikmanninn en talið er ólíklegt að það verði samþykkt á þessum tímapunkti.

Valur er ekki eina félagið sem hefur verið að reyna við Gísla en samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafnaði Víkingur tilboði frá KR á síðasta sólarhringnum og því alveg ljóst að Víkingur vill ekki missa þennan efnilega leikmann frá sér.

Gísli kom til Víkings frá Bologna fyrir tveimur árum og var ekki í stóru hlutverki fyrstu tvö tímabilin.

Staðan var svipuð í byrjun sumars en þegar á leið fékk hann stærra hlutverk og hefur hann reynst liðinu gríðarlega mikilvægur í undanförnum leikjum. Alls hefur hann spilað 15 leiki í Bestu deildinni í sumar en hann lék sextán leiki í heildina á fyrstu tveimur tímabilunum.

Glugginn lokar að miðnætti og er útlit fyrir að Gísli verði áfram í herbúðum Víkings, en hann og liðsfélagar hans undirbúa sig nú undir mikilvægan leik gegn eistneska liðinu Flora Tallinn í 3. umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli í Víkinni en síðari leikurinn er spilaður á fimmtudag á heimavelli Flora. Sigurvegarinn fer í umspil og mætir þar líklegast Santa Coloma frá Andorra.
Athugasemdir
banner
banner