Ítalska liðið AC Milan er með fjögur stig í E-riðli Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið Dinamo Zagreb, 3-1, á San Síró-leikvanginum í Mílanó í kvöld.
Milan var það lið sem skapaði sér mest í fyrri hálfleiknum. Brahim Diaz og Rafael Leao voru að tengja saman í sókninni og áttu nokkur fín færi en náðu ekki að ganga frá þeim.
Eina mark fyrri hálfleiksins gerði Olivier Giroud úr vítaspyrnu en það kom undir lok hálfleiksins. Josip Sutalo fór aftan í hælinn á Rafael Leao og vítaspyrna dæmd. Giroud skoraði af miklu öryggi.
Alexis Saelemaekers tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks eftir glæsilegt hlaup Leao upp vinstri vænginn. Hann kom með góða fyrirgjöf fyrir markið sem Saelemaekers mætti og stangaði boltann í netið.
Mislav Orsic og Bruno Petkovic bjuggu til mark Zagreb í þessum leik, líkt og þeir gerðu í síðasta leik liðsins í 1-0 sigrinum á Chelsea, en Orsic fann Petkovic í þríhyrningsspil áður en Orsic afgreiddi boltann í netið.
Milan kláraði leikinn þegar þrettán mínútur voru eftir í gegnum ítalska miðjumanninn Tommaso Pobega. Hann gaf á Theo Hernandez sem hann Pobega aftur í teignum áður en hann skaut boltanum í slá og inn. Lokatölur 3-1 fyrir Milan sem er með 4 stig í efsta sæti E-riðils.
Shakhtar Donetsk gerði á meðan 1-1 jafntefli við Celtic í F-riðlinum.
Úkraínumennirnir lentu undir á 10. mínútu eftir sjálfsmark Artem Bondarenko áður en hinn eftirsótti Mykhailo Mudryk jafnaði metin á 29. mínútu.
Mudryk er nú með tvö mörk og tvær stoðsendingar í fyrstu tveimur leikjunum í Meistaradeildinni en hann hefur verið orðaður við stórlið í Evrópu síðustu vikur.
Shakhtar er með 4 stig í efsta sæti F-riðils en Celtic með eitt stig í 3. sæti.
Úrslit og markaskorarar:
E-riðill:
Milan 3 - 1 Dinamo Zagreb
1-0 Olivier Giroud ('45 , víti)
2-0 Alexis Saelemaekers ('47 )
2-1 Mislav Orsic ('56 )
3-1 Tommaso Pobega ('77 )
F-riðill:
Shakhtar D 1 - 1 Celtic
0-1 Artem Bondarenko ('10 , sjálfsmark)
1-1 Mykhailo Mudryk ('29 )
Athugasemdir