Wharton til Real Madrid - Chelsea vill Vini - Sunderland horfir til Barcelona - Sterling að losna úr prísundinni?
   mán 05. janúar 2026 10:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Held að Amorim hafi viljað sparkið" - Leitað til McKenna?
Amorim var rekinn í morgun.
Amorim var rekinn í morgun.
Mynd: EPA
McKenna.
McKenna.
Mynd: EPA
„Ég kom hingað til að vera stjóri Manchester United, ekki til að vera þjálfari Manchester United. Það er staðreynd. Ég veit að ég heiti ekki (Antonio) Conte, ég heiti ekki (José) Mourinho, en ég er stjóri Manchester United og þannig verður það næstu 18 mánuði eða þegar stjórnin ákveður að breyta til. Ég ætla ekki að hætta í þessu starfi. Ég ætla að halda áfram að sinna mínu starfi þar til einhver annar kemur hingað til að taka við," sagði Ruben Amorim, þáverandi stjóri Manchester United, eftir leikinn gegn Leeds í gær.

Hann var rekinn úr starfi sínu í morgun eftir 14 mánuði hjá félaginu. Darren Fletcher mun stýra liðinu gegn Burnley á miðvikudag.

Jamie O'Hara er sérfræðingur hjá Sky Sports og hann telur að Amorim hafi viljað vera rekinn.

„Ég velti fyrir mér hvort hann hafi séð stöðuna sem kom upp með Maresca hjá Chelsea og hafi hugsað með sér að hann væri búinn að fá nóg af þessu. Sem stjóri, ef þú ert búinn að fá nóg og vilt vera rekinn, þá ferðu á móti stjórninni. Þú veist að þeir munu taka ákvörðun og þeir gerðu það strax. Ég held að hann hafi viljað sparkið," segir O'Hara.

Hann veltir fyrir sér möguleikum United hvað varðar næsta stjóra og Kieran McKenna er einstkalingur sem hann telur líklegt að United horfi til.

„Hann var hjá Man Utd í langan tíma og er elskaður þar. Hann er alvöru þjálfari. Það kæmi mér ekki á óvart ef Man Utd myndu horfa til McKenna í þessari stöðu. Ráðamenn vilja einhvern sem er tilbúinn að vera aðalþjálfari, einhvern sem svarar kallinu frá þeim, setur ekki spurningarmerki við kaup, kemur bara inn og þjálfar liðið. Ef það er módelið sem unnið er eftir, þá yrði ég ekki hissa ef McKenna verður ráðinn," segir O'Hara.

McKenna er þjálfari Ipswich sem situr í 3. sæti Championship-deildarinnar. McKenna er 39 ára Norður-Íri sem var hjá United frá 2016-21.
Athugasemdir
banner
banner