Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   fim 15. ágúst 2024 19:57
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Ótrúleg endurkoma FH í Keflavík
Kvenaboltinn
Saorla skoraði og lagði upp í fyrri hálfleik.
Saorla skoraði og lagði upp í fyrri hálfleik.
Mynd: Keflavík
Breukelen fullkomnaði endurkomuna á lokamínútum venjulegs leiktíma.
Breukelen fullkomnaði endurkomuna á lokamínútum venjulegs leiktíma.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Keflavík 3 - 4 FH
1-0 Ariela Lewis ('7)
2-0 Saorla Lorraine Miller ('28)
3-0 Ariela Lewis ('30)
3-1 Snædís María Jörundsdóttir ('55)
3-2 Arna Eiríksdóttir ('70)
3-3 Elísa Lana Sigurjónsdóttir ('76)
3-4 Breukelen Lachelle Woodard ('89)

Lestu um leikinn: Keflavík 3 -  4 FH

Keflavík og FH áttust við í ótrúlega skemmtilegri viðureign í Bestu deild kvenna í kvöld, þar sem gestirnir úr Hafnarfirði komust í þriggja marka forystu í fyrri hálfleik.

Ariela Lewis var allt í öllu í liði heimakvenna. Hún skoraði fyrst eftir frábæran undirbúning frá Melanie Rendeiro og átti svo stoðsendingu á Saorla Miller sem tvöfaldaði forystuna á 28. mínútu. Skömmu síðar skoraði Ariela aftur til að koma Keflavík í þriggja marka forystu.

Staðan var 3-0 í hálfleik, en fram að öðru marki Keflvíkinga var leikurinn í járnum og áttu gestirnir í liði FH að fá dæmda vítaspyrnu sem þær fengu ekki.

FH komst nálægt því að minnka muninn undir lok fyrri hálfleiks en boltinn rataði ekki í netið fyrr en eftir leikhlé, þegar Snædís María Jörundsdóttir skoraði á 55. mínútu.

FH var talsvert sterkara liðið í síðari hálfleik og skilaði sóknarþungi liðsins sér með marki á 70. mínútu þegar Arna Eiríksdóttir minnkaði muninn niður í eitt mark með skalla eftir hornspyrnu.

Það leið ekki á löngu þar til jöfnunarmarkið leit dagsins ljós og aftur kom það eftir hornspyrnu. Í þetta sinn skoraði Elísa Lana Sigurjónsdóttir beint úr hornspyrnunni, án þess að boltinn hafi haft viðkomu í neinum leikmanni á leið sinni í netið.

FH hélt áfram að sækja á lokakafla leiksins og reyndi að fullkomna ótrúlega endurkomu í Keflavík. Það tókst á lokamínútum leiksins, þegar Breukelen Lachelle Woodard skoraði með frábæru skoti úr D-boganum.

Hvorugu liði tókst að bæta marki við leikinn í uppbótartíma og urðu lokatölur 3-4 fyrir FH eftir ótrúlega endurkomu.

Keflavík er áfram á botni Bestu deildarinnar eftir þetta tap, en FH situr í fimmta sæti og er þar aðeins fjórum stigum á eftir Þór/KA í þriðja sæti.

FH tryggði sér sæti í efri hluta Bestu deildarinnar fyrir tvískiptingu með þessum glæsilega sigri.
Athugasemdir