Orri Steinn Óskarsson lék allan leikinn í fremstu víglínu hjá FC Kaupmannahöfn er liðið heimsótti FC Baník Ostrava til Tékklands í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.
Kaupmannahöfn hafði unnið fyrri leikinn 1-0 á heimavelli en Tékkarnir voru sterkari í kvöld og unnu 1-0 í venjulegum leiktíma.
Leikurinn fór í framlengingu þar sem staðan var 1-1 samanlagt og voru gestirnir frá Kaupmannahöfn talsvert sterkari aðilinn þar, en áttu erfitt með að skora. Að lokum var farið í vítaspyrnukeppni þar sem aðeins þrjú mörk voru skoruð í níu tilraunum.
Heimamenn byrjuðu á því að klúðra fyrstu spyrnunni en þá var komið að Orra Steini og klúðraði hann sinni spyrnu. Það kom þó ekki að sök þar sem heimamenn skoruðu aðeins einu sinni í fimm tilraunum og reyndist markvörðurinn Nathan Trott hetjan.
Rúnar Alex Rúnarsson er varamarkvörður FCK og horfði hann á leikinn frá varamannabekknum.
FCK spilar við skoska félagið Kilmarnock í úrslitaleik um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Guðmundur Þórarinsson lék þá allan leikinn í varnarlínu FC Noah sem komst áfram í næstu umferð eftir flotta frammistöðu á útivelli gegn gríska stórveldinu AEK frá Aþenu.
Noah, sem er frá Armeníu, vann fyrri leikinn 3-1 á heimavelli og tapaði 1-0 í kvöld. AEK sýndi mikla yfirburði í kvöld en tókst ekki að skora fyrr en í uppbótartíma venjulegs leiktíma. Það dugði ekki til og komast Gummi og félagar áfram í næstu umferð þökk sé hetjulegum varnarleik.
Noah mætir annað hvort Ruzomberok frá Slóvakíu eða Hajduk Split frá Króatíu í úrslitaleik um sæti í riðlakeppninni.
Að lokum var Andri Lucas Guðjohnsen í byrjunarliði belgíska liðsins Gent sem tók á móti Silkeborg í hörkuslag, eftir 2-2 jafntefli í fyrri leiknum í Danmörku.
Silkeborg tók forystuna í tvígang í Belgíu, en Andra var skipt af velli á 59. mínútu í stöðunni 1-2. Gent tókst að gera jöfnunarmark í uppbótartíma og knýja leikinn þannig í framlengingu.
Gent var sterkara liðið í leiknum og sýndi yfirburði en gestirnir í liði Silkeborg spiluðu án ótta og fengu einnig góð færi í opnum og skemmtilegum slag.
Omri Gandelman skoraði sigurmark Gent undir lok framlengingarinnar og tryggði liðinu þar með farmiða í úrslitaleik um sæti í riðlakeppninni, þar sem Gent mun mæta FK Partizan frá Serbíu eða FC Lugano frá Sviss.
Til gamans má geta að Brann, Djurgården og HJK eru meðal félaga sem eru búin að tryggja sér þátttökurétt í úrslitaleik um sæti í riðlakeppninni, auk Krzysztof Piatek og félaga í liði Istanbul Basaksehir.
Ostrava 1 - 0 FCK (1-1 samanlagt)
1-0 E. Prekop ('42)
1-2 eftir vítaspyrnukeppni
AEK 1 - 0 FC Noah (2-3 samanlagt)
1-0 G. Silva ('92, sjálfsmark)
Gent 3 - 2 Silkeborg (5-4 samanlagt)
0-1 T. Adamsen ('33)
1-1 M. Dean ('38)
1-2 T. Adamsen ('51, víti)
2-2 O. Gandelman ('93)
3-2 O. Gandelman ('118)
Athugasemdir