Chelsea opnar viðræður við Milan - Saliba í samningaviðræðum - Bellingham til Dortmund?
   fim 15. ágúst 2024 19:06
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Nico Williams byrjaði á bekknum í jafntefli
Mynd: EPA
Athletic Bilbao 1 - 1 Getafe
1-0 Oihan Sancet ('27)
1-1 Chrisantus Uche ('64)

Nico Williams byrjaði á bekknum er Athletic Bilbao mætti til leiks í fyrstu umferð nýs deildartímabils á Spáni.

Athletic fékk Getafe í heimsókn til Baskalands og ríkti mikið jafnræði í nokkuð tíðindalitlum leik sem einkenndist af mikilli baráttu.

Oihan Sancet tók forystuna fyrir Athletic á 27. mínútu eftir að skot hans breytti um stefnu af varnarmanni áður en hann fór í netið. Sancet fékk góða stoðsendingu frá Gorka Guruzeta.

Getafe byrjaði seinni hálfleikinn betur og verðskuldaði jöfnunarmark á 64. mínútu þegar Chrisantus Uche skoraði í frumraun sinni fyrir félagið.

Uche er 21 árs gamall varnarsinnaður miðjumaður sem var fenginn til Getafe í sumar eftir að hafa leikið með AD Ceuta í þriðju efstu deild spænska boltans á síðustu leiktíð, en þar stóð Uche sig ótrúlega vel og var einn af bestu leikmönnum deildarinnar.

Er tók að líða á síðari hálfleikinn var kantmanninum knáa Nico Williams loks skipt inn á völlinn og við það lifnaði sóknarleikur Athletic til lífsins.

Williams komst nálægt því að skora á lokakaflanum en tókst ekki á þeim 20 mínútum sem hann fékk og því urðu lokatölur 1-1.

Williams er gríðarlega eftirsóttur eftir frábæra frammistöðu með spænska landsliðinu sem vann Evrópumótið í sumar. Barcelona og PSG eru talin vera sérlega áhugasöm.
Athugasemdir