Real Betis 1 - 1 Girona
1-0 Marc Bartra ('6)
1-1 Gabriel Misehouy ('72)
1-0 Marc Bartra ('6)
1-1 Gabriel Misehouy ('72)
Real Betis og Girona áttust við í fyrstu umferð nýs deildartímabils í spænska boltanum. Þar voru tvö spennandi lið að mætast, þar sem Betis endaði í Sambandsdeildarsæti á síðustu leiktíð á meðan Girona reyndist spútnik lið tímabilsins og náði þriðja sæti í La Liga.
Í dag var það varnarmaðurinn Marc Bartra sem skoraði fyrsta mark leiksins með skalla eftir hornspyrnu frá Nabil Fekir, strax á sjöttu mínútu leiksins, til að taka forystuna fyrir Betis.
Hinn 33 ára Bartra, sem ólst upp hjá Barcelona, er nýkominn aftur til Betis eftir að hafa átt frábært tímabil með Trabzonspor í tyrkneska boltanum á síðustu leiktíð.
Betis var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en leikurinn var jafnari í síðari hálfleik og fengu gestirnir frá Girona betri færi.
Hinn efnilegi Gabriel Misehouy, sem var fenginn til Girona frá Ajax í sumar, kom inn af bekknum á 71. mínútu og skoraði jöfnunarmarkið einni mínútu síðar eftir góða sendingu frá Iker Amena.
Skömmu síðar fékk Chimy Avila tækifæri til að endurheimta forystuna fyrir Betis en tókst ekki að skora og eftir það komst Johnny Cardoso einnig nálægt því að krækja í sigurinn fyrir heimamenn, en skot hans fór rétt yfir markið.
Girona geta gengið sáttir með stig frá Betis, en heimamenn eru eflaust svekktir eftir góðar marktilraunir á lokakaflanum.
Lokatölur 1-1 og eru Athletic Bilbao, Getafe, Girona og Real Betis því öll jöfn með eitt stig og eitt mark skorað eftir tvo fyrstu leikina á nýju tímabili.
Athugasemdir