Harry Kane landsliðsfyrirliði Englands er spenntur fyrir því að hafa Thomas Tuchel sem landsliðsþjálfara. Framherjinn markaóði tjáði sig um Tuchel í dag og skömmu síðar greindu fréttamiðlar víða um Evrópu frá því að þýski þjálfarinn hefði samþykkt samningstilboð frá enska fótboltasambandinu.
Kane leikur fyrir FC Bayern og raðaði hann inn mörkunum undir stjórn Tuchel á síðustu leiktíð, sem var hans fyrsta tímabil í þýska boltanum.
„Ég get í raun ekki tjáð mig um þetta fyrr en það er gefin út einhver opinber tilkynning. Við verðum að bíða og sjá," sagði Kane í dag.
„Ég þekki Thomas auðvitað mjög vel frá því að hafa starfað með honum á síðustu leiktíð og ég verð að segja að hann er frábær þjálfari og manneskja. Ég býst við að fótboltasambandið hafi samband við mig þegar það er eitthvað nýtt að frétta."
Athugasemdir