Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 15. nóvember 2019 19:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Markadúettinn í Wolfsburg: Viljum vinna Meistaradeildina
Ewa Pajor er fyrir miðju á myndinni og Pernille Harder til hægri. Með þeim er Caroline Graham Hansen.
Ewa Pajor er fyrir miðju á myndinni og Pernille Harder til hægri. Með þeim er Caroline Graham Hansen.
Mynd: Getty Images
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, leikur með Harder og Pajor hjá Wolfsburg.
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, leikur með Harder og Pajor hjá Wolfsburg.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ewa Pajor.
Ewa Pajor.
Mynd: Getty Images
Pernille Harder.
Pernille Harder.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Vefsíðan Goal.com valdi nýlega 50 bestu leikmenn í heimi fyrir árið 2019. Virgil van Dijk og Megan Rapinoe voru valin best.

Smelltu hér til að sjá lista Goal.

Í kvennaflokki komast tveir liðsfélagar Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, landsliðsfyrirliða, hjá þýska stórliðinu Wolfsburg á 25 manna listann. Danska landsliðskonan Pernille Harder er í fimmta sæti og Ewa Pajor frá Póllandi er í 22. sæti.

Á meðan Sara sér um að binda saman miðjuna, þá eru Harder og Pajor mjög öflugar fyrir framan markið. Í grein sinni fyrir Goal gengur fjölmiðlakonan Ameé Ruszkai svo langt að lýsa þeim sem: „hættulegasta sóknardúett í leiknum."

„Hún er ótrúlegur leikmaður og leikmaður sem fær ekki eins mikla athygli og hún á skilið. Það er mjög gott að hún sé á listanum, það er verðskuldað," sagði Harder um Pajor.

„Hún er mjög fljót. Ekki það að ég sé eitthvað hæg, ég er bara ekki jafn fljót og Ewa! Hún les leikinn vel og við náum vel saman. Ég nýt þess mjög að spila með henni."

Harder er 26 ára, fjórum árum eldri en Pajor.

Þær hafa náð einstaklega vel saman, en þær skoruðu 44% marka Wolfsburg í þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð er liðið varð meistari þriðja árið í röð. Pajor var markahæst í deildinni með 24 mörk í 19 leikjum.

Eftir níu leiki á þessu tímabili er Wolfsburg með fullt hús stiga og er Harder markahæst í deildinni með 12 mörk. Pajor hefur skorað sjö, og er Sara Björk með fimm mörk.

„Ég held að við náum svona vel saman vegna þess að okkar leikstílar eru mjög mismunandi," segir Harder.

Gat bara spilað með strákum
Pajor kemur eins og áður segir frá Póllandi. Þegar hún var yngri gat hún bara spilað með strákum þar sem áhuginn hjá stelpum á fótbolta var lítill.

„Það var erfitt að geta bara spilað með strákum," segir Pajor.

„Í dag er það allt öðruvísi, en áður fyrr höfðu stelpur ekki mikinn áhuga á fótbolta."

Pajor var aðeins 15 ára þegar hún lék sinn fyrsta leik í pólsku úrvalsdeildinni með Medyk Konin, og er hún yngsti leikmaðurinn í sögunni til að gera það. Hún fékk félagaskipti yfir til Wolfsburg árið 2015.

„Það var ekki alltaf auðvelt að vera í búningsklefanum 15 ára þegar aðrir leikmenn voru þrítugir. Ég var hrædd í byrjun. Ég var mjög stressuð og bar mikla virðingu fyrir hinum leikmönnunum vegna þess að ég bjóst aldrei við því að vera í aðalliðinu 15 ára."

„Það gerir mig mjög ánægða ef ég get verið fyrirmynd fyrir stelpur í Póllandi

Meiri virðing í Danmörku
Harder hefur farið fyrir danska landsliðinu sem komst í undanúrslitin á EM 2013 og í úrslitaleikinn 2017. Hún segir að hugarfar fólks í Danmörku hafi breyst eftir Evrópumótið fyrir tveimur árum.

„Það gerðist mikið eftir EM 2017. Það hvernig fólk horfði á kvennafótbolta. Virðingin er meiri."

Harder dreymdi alltaf um að spila fyrir danska landsliðið.

„Mig dreymdi alltaf um að spila fyrir danska landsliðið og að hafa fótbolta fyrir atvinnu."

„Ég man eftir verkefni sem ég gerði í skólanum þegar ég var tíu ára. Ég þurfti að skrifa um það hvar ég yrði tíu árum síðar. Ég skrifaði að ég yrði atvinnumaður í fótbolta og ein sú besta í heimi."

Fyrirmyndir
Núna getur ungar stelpur litið upp til leikmanna eins og Harder, Pajor, Hagerberg og Söru Bjarkar svo einhver dæmi séu tekin - skapaðar hafa verið fyrirmyndir í kvennaknattspyrnu sem hvorki Pajor né Harder áttu þegar þær voru að alast upp.

„Það var mjög lítið um kvennaknattspyrnu í sjónvarpinu þegar ég var að alast upp. Ég fann fyrirmynd mína í (Cristiano) Ronaldo," segir Pajor.

„Hann er besti leikmaður í heimi. Ég reyni alltaf að horfa á leikina sem hann spilar til þess að læra af honum."

Pajor fagnar meira að segja mörkum sínum eins og Ronaldo. Harder lítur einnig upp til Ronaldo.

„Ég horfi mikið á fótbolta. Ég horfi, til dæmis, á það hvernig Ronaldo tekur hlaup inn í teiginn. Ég reyni að læra af þeim bestu."

„Ég horfi mikið á ensku úrvalsdeildina. Þar finnst mér gaman að horfa á (Raheem) Sterling og (Sadio) Mane. Mér finnst gaman að horfa á þannig leikmenn."

Dreymir um Meistaradeildina
Wolfsburg hefur tvisvar unnið Meistaradeildina, árin 2013 og 2014, þegar hvorki Harder né Pajor voru í liðinu. Þær dreymir um að vinna stærsta titilinn í félagsliðafótbolta.

Franska félagið Lyon hefur verið með yfirburði í keppninni undanfarin ár og unnið fjögur ár í röð.

Sjá einnig:
Besta íþróttalið sem fyrirfinnst?

Lyon sló Wolfsburg út í 8-liða úrslitunum á síðustu leiktíð og hafði betur þegar liðin mættust í úrslitaleiknum 2018.

Í 8-liða úrslitunum þetta tímabilið mun Wolfsburg mæta Glasgow City frá Skotlandi.

„Við erum mjög hungraðar í að vinna Meistaradeildina. Við höfum markmið að vinna deildina og bikarinn, en líka Meistaradeildina. Þetta eru háleit markmið, en við getum unnið alla titla," sagði Harder að lokum.

Viðtalið má í heild sinni lesa hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner