Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
   þri 16. janúar 2024 16:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Víkurfréttir 
Ólafur Örn stýrir einni öflugustu akademíu Noregs
Ólafur Örn Bjarnason.
Ólafur Örn Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék alls 27 leiki fyrir íslenska landsliðið.
Lék alls 27 leiki fyrir íslenska landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Fyrirliði.
Fyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Örn Bjarnason var til viðtals í Víkurfréttum, Sigurbjörn Daði Dagbjartsson ræddi við hann og var viðtalið birt á laugardag.

Þar segir fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn frá starfi sínu í Noregi en hann er í dag yfirmaður akademíunnar hjá Stabæk í Osló sem er höfuðborg Noregs. Hann starfaði áður hjá norska sambandinu en tók svo við þessu starfi hjá einni stærstu akademíu Noregs.

„Ég er yfir akademíunni sem telur varalið Stabæk, junior-liðið, sem er eins og annar flokkur, svo sautján ára, fimmtán ára, fjórtán ára, þrettán ára, tólf og ellefu ára liðið. Ég er með yfirumsjón með allri þjálfun, er yfir því að finna efnilegustu leikmennina og fá þá í þessi lið og fylgja þeim eftir. Við erum með fjóra til fimm leikmenn í flestum yngri landsliðum Noregs svo unglingastarfið er mjög öflugt hér og mjög góðir og færir þjálfarar. Ég vinn náið með þeim og þarf líka oft að ferðast til annarra félaga og hitta kollega, bæði hér í Noregi og í öðrum löndum," sagði Ólafur

„Þjálfarinn blundar alveg í mér en það þyrfti að vera mjög spennandi verkefni sem byðist svo ég myndi vilja hætta því sem ég er að gera í dag. Starfið er mjög fjölbreytt, ég er bæði úti á grasinu en líka að skoða leikmenn með viðkomandi þjálfara, ég vinn líka náið með aðalliðinu svo starfið er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Pressan í þessu starfi er líka annars eðlis en að vera þjálfari aðalliðs. Þar er pressan kannski sú að vinna titla eða enda sem hæst, pressan í mínu starfi kemur í raun mest frá foreldrum, maður þarf oft að finna jafnvægi þar en þetta á vel við mig."

„Akademíurnar hjá stóru klúbbunum eru alltaf að stækka, mér finnst þetta spennandi starfsvettvangur og get hugsað mér að vera í þessu í langan tíma. Ég er ekki að leita eftir einhverju öðru í augnablikinu en auðvitað heillar England og Danmörk, Svíþjóð og Bandaríkin eru líka spennandi kostur en við erum sátt hér í Noregi í bili. Fótboltinn er samt eins og fótboltinn er, maður getur verið farinn eitthvert annað á næsta ári en ég er með samning út næsta ár og veit ekkert á þessari stundu hvað tekur við,"
sagði Grindvíkingurinn við Víkurfréttir.

Í viðtalinu ræðir han einnig um leikmannaferilinn og fyrri störf. Hann var þjálfari í Noregi á árunum 2013-2017. Hann fékk í kjölfarið starf hjá norska sambandinu þar sem hann var yfir allri þjálfaramenntun í Suður-Noregi. „Undir það síðasta var ég farinn að fylgja eftir efnilegustu leikmönnunum á svæðinu og upp frá því bauðst mér svo starfið hjá Stabæk."

Ólafur lék með Grindavík 1992-1997, aftur 2000-2003 og svo 2010-2012. Hann lauk svo ferlinum með Fram tímabilið 2013 og varð bikarmeistari. Alls lék hann 27 A-landsleiki. Sem atvinnumaður lék hann með Malmö frá 1998-2000 og svo með Brann frá 2004-2010. Hjá Brann varð hann bæði norskur meistari og bikarmeistari. Hann þjálfaði Egersund og Fyllingsdalen áður en hann fékk starf hjá norska sambandinu. Tímabilið 2010 var Ólafur spilandi þjálfari Grindavíkur.
Athugasemdir
banner
banner