 
        
                        
                                    
                                                    
                „Þetta var erfitt í seinni, við þurftum að þrauka þetta. Síðan fáum við víti og skorum en sýndum síðan mikinn karakter að skora aftur eftir að hafa fengið jöfnunarmarkið á okkur,“ sagði Óliver Elís Hlynsson, varnarmaður ÍR, eftir dramatískan 2-1 sigur ÍR-inga gegn Fram í kvöld.
Óliver var valinn maður leiksins á miðlum ÍR en hann telur að plan ÍR-inga fyrir seinni hálfleikinn hafi alls ekki gengið upp eftir frábæran fyrri hálfleik.
„Planið okkar gekk ekki alveg eins og við ætluðum okkur í seinni, bara algjörlega ekki. Við fórum bara í eitthvað survival mode. En þessi liðsheild sem við höfum, að við klárum það þrátt fyrir það að spila ekki eftir okkar plani.“
Honum finnst einnig ÍR hafa sýnt það í gegnum árin að þeir geta staðið í liðunum efstu deild.
„Við höfum sýnt það í Reykjavíkurmótinu í ár og seinustu ár að ef við spilum okkar leik getum við staðið í öllum þessum liðum.“
Óliver er spenntur fyrir komandi átökum í Lengjudeildinni með uppeldisfélaginu sínu og er búinn að setja sér markmið fyrir tímabilið.
„Ég ætla að reyna að spila sem mest. Við erum auðvitað í deild fyrir ofan núna en persónulega ætla ég að sýna það að ég get spilað í þessari deild, og síðan að liðið geti það. Ég hef fulla trú á þessu liði og þessum leikmönnum.“ sagði kampakátur Óliver Elís Hlynsson eftir dramatískan 2-1 sigur ÍR-inga á Fram í Lengjubikarnum í kvöld.
Viðtalið er lengra en það má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

 
        



















 
         
     
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        
                        
        
         
                    
        
         
                 
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            
                        
        
         
                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                
                        
        
        