Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 17. maí 2021 13:30
Fótbolti.net
Hratt gripið í taumana ef næsta tímabil fer illa af stað
Mikel Arteta er mikið í umræðunni.
Mikel Arteta er mikið í umræðunni.
Mynd: Getty Images
Í hlaðvarpsþættinum Enski boltinn er meðal annars rætt um þá vegferð sem Arsenal er í undir stjórn Mikel Arteta. Jón Kaldal og Engilbert Aron Kristjánsson, stuðningsmenn Arsenal, eru ekki hrifnir af starfi Arteta hjá Arsenal.

„Mér finnst þetta tímabil óásættanlegt. Ekki bara horft út frá stöðunni í deildinni heldur líka hvernig hefur verið haldið á leikmannahópnum. Þetta eru mikil vonbrigði. Ég satt að segja býst allt eins við því að Arteta verði látinn fara í vor," segir Jón.

„Þau skilaboð sem heyrast frá þeim sem telja sig þekkja til er að hann fái aftur sénsinn næsta vetur en það verði gripið hratt í taumana ef liðið byrjar ekki vel. Persónulega væri ég til í að sjá skipt um mann í brúnni núna í sumar."

Engilbert Aron tekur undir þetta.

„Þetta er versta tímabil sem ég hef séð hjá liðinu síðan ég byrjaði að fylgjast með. Eins og Jón segir, ekki bara út frá stöðunni í deildinni heldur líka út frá spilamennsku. Að mörgu leyti hefur spilamennskan verið verri en staðan segir til um. Sóknarleikurinn hefur verið gjörsamlega steingeldur," segir Aron.

„Báðir leikirnir gegn Villarreal voru hræðilegir og Arteta afhjúpaði sig í þessu einvígi. Í stað þess að nýta styrkleika þeirra leikmanna sem hann hefur þá er hann að láta þá spila kerfi sem hentar ekki hópnum. Þetta var ósannfærandi og illa haldið á," segir Jón Kaldal.

Rætt er um hugmyndafræði Arteta en liðið situr í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Manni líður eins og þetta sé of formfast. Menn eru að fá of margar skipanir sem þeir ráða ekki við. Leikmenn virðast detta í þann pytt að það eigi að spila eftir uppskriftum en það vantar eðlisávísun og leikgleði," segir Engilbert Aron. Vill hann líka að Arteta verði látinn fara?

„Ég er alveg kominn þangað. Það virðist vera stór munur á því sem Arteta segir út á við, þá er hann rosa flottur, og því sem hann sýnir í leikjum. Hvernig uppleggið er og hvernig skiptingarnar eru, það er ekki nægilega gott."
Enski boltinn - Risasumar Arsenal og lygilegt mark Alisson
Athugasemdir
banner
banner
banner